Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var svekktur með tapið fyrir Portúgal í undankeppni EM 2024 í kvöld en kvaðst þó ánægður með frammistöðu íslenska liðsins.
„Þetta er náttúrlega hundfúlt. Mér fannst við ekki beint vera með stjórn á leiknum en okkur leið ágætlega þótt þeir hafi að sjálfsögðu verið meira með boltann.
Portúgal er með frábæra fótboltamenn og við vissum að leikurinn myndi þróast þannig. Eftir alla þessa erfiðisvinnu var smá kjaftshögg að fá mark í andlitið á 90. mínútu,“ sagði Albert í samtali við mbl.is eftir leik.
Portúgal hafði betur, 1:0, þar sem Cristiano Ronaldo skoraði sigurmarkið undir lokin í sínum 200. landsleik. Markið þótti umdeilt og var Albert spurður hvort hann væri búinn að sjá það aftur.
„Nei, ég er ekki búinn að sjá það aftur. Ég sá einhverja mynd og það var einhver umræða í klefanum en mér skilst að þetta hafi allavega verið tæpt,“ sagði hann.
Albert kvaðst ánægður með nýjan landsliðsþjálfara, Åge Hareide.
„Mér finnst hann vera að stimpla góða hluti inn í liðið og þrátt fyrir 0 stig í þessum glugga þá finnst mér við hafa sýnt tvær góðar frammistöður. Vonandi getum við byggt betur ofan á þær.“
Sjálfur fékk hann tækifærið í byrjunarliðinu í báðum leikjunum í yfirstandandi landsleikjaglugga.
„Ég er alltaf sáttur að fá að spila með landsliðinu og vonandi heldur það áfram,“ sagði Albert.
Hann er leikmaður Genoa á Ítalíu en hefur verið orðaður við brottför annað, þar á meðal til stórliðs AC Milan. Spurður hvort hann gæti skipt um lið í sumar sagði Albert:
„Já, það gæti gerst. Ég fer út til Genoa núna í lok mánaðarins og ræði það bara við liðið og við sjáum hvað gerist þá.“