„Þessi leikur leggst mjög vel í mig,“ sagði Jóhann D. Bianco, trommari í stuðningsmannasveit Tólfunnar, í samtali við mbl.is fyrir utan Ölver í Glæsibæ í dag.
Ísland mætir Portúgal í J-riðli undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli klukkan 18.45 og þarf nauðsynlega á stigum að halda, ætli liðið sér að berjast um efstu sæti riðilsins.
„Þetta átti auðvitað að vera einhver partíleikur, þar sem manni var í raun sama hvort við myndum vinna 1:0 eða tapa 7:0, en tapið gegn Slóvakíu setti okkur í heldur erfiða stöðu.
Við áttum að vinna þá en svona er þetta og núna verðum við bara að taka stig af Portúgal. Það er komið sumar og Ronaldo er mættur. Það er skrifað í skýin að Ronaldo geri einhverja vitleysu þar sem hann er að spila sinn 200. landsleik,“ sagði Jóhann léttur.
Trommarinn er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins í kvöld.
„Það verður nóg að gera hjá mér á leiknum. Ég er búinn að vera í þessu frá árinu 2007 og stemningin hefur farið upp og niður á þeim tíma. Ég á hins vegar von á frábærri stemningu á leiknum í kvöld og við tökum klárlega stig af Portúgölunum í kvöld,“ bætti trommarinn við í samtali við mbl.is.