Þeir kunna að ýkja

Sævar Atli Magnússon svekktur í leikslok.
Sævar Atli Magnússon svekktur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sævar Atli Magnússon kom inn á sem varamaður í 0:1-tapi íslenska landsliðsins í knattspyrnu fyrir því portúgalska í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld og þótti illa vegið að Íslandi hvað stærstu atriði leiksins varðaði.

Vísaði hann þar til umdeilds sigurmarks Portúgals og síðara gula spjaldsins sem Willum Þór Willumsson fékk, sem þýddi rautt spjald.

„Þetta er rosalega svekkjandi. Ég er ekki búinn að sjá markið þeirra aftur en ég er búinn að heyra að það er gjörsamlega ekki hægt að snúa þessu við. Það er leikmaður fyrir innan sem hefur áhrif á leikinn, sem ýtir í bakið á Hödda [Herði Björgvini Magnússyni].

Síðan finnst mér annað gula spjaldið á Willum aldrei vera gult spjald. Ég stend ofan í þessu. Þeir ýkja þetta vel, kunna þetta. Þeir eru með meiri reynslu en við í svona landsliðsfótbolta og henda sér niður. Mér fannst við spila frekar vel, uppleggið okkar gekk vel.

Við fengum 2-3 fínustu færi. Þeir fá alltaf færi, við vitum það. Við héldum teignum okkar frekar vel að mestu leyti. Það er náttúrlega erfitt að lenda manni undir og svo kemur þetta mark. En svona er þetta bara. Við þurfum að fara að snúa þessari ólukku við,“ sagði Sævar Atli í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Þurfum að snúa ólukkunni við

Þrátt fyrir að uppskeran í yfirstandandi landsleikjaglugga sé núll stig og aðeins þrjú stig í heildina telur hann íslenska liðið vera á réttri leið.

„Það er 100 prósent. Við erum að leita í þessa gömlu, íslensku leið. Vinna baráttuna, spila einfalt, einfalt kerfi. Það er að virka en við þurfum að snúa þessari ólukku við og það sem fyrst, því frammistöðurnar í þessum tveimur leikjum eru búnar að vera mjög góðar.

En núll stig. Þú getur ekki verið að tala um frammistöður í landsliðsfótbolta því þú þarft að safna stigum þannig að þetta er mjög svekkjandi.

Upp á framhaldið að gera líst mér mjög vel á þetta og er mjög spenntur fyrir því að fá smá frí, koma síðan aftur og berjast fyrir sæti í hópnum í september og reyna að ná í sex stig þar,“ sagði Sævar Atli.

Líklega þörf á að vinna alla leiki

Erfitt mun reynast Íslandi að komast beint á EM úr þessu en sóknarmaðurinn hefur enn trú á því að það sé mögulegt.

„Það voru víst einhver úrslit sem duttu með okkur í dag en ætli við þurfum ekki að vinna hvern einasta leik sem eftir er til að eiga möguleika. Miðað við hvernig frammistaðan er búin að vera þá hef ég alveg trú á því,“ sagði Sævar Atli að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert