Landsliðsmiðvörðurinn Hörður Björgvin Magnússon var að vonum svekktur eftir 1:0-tap fyrir Portúgal í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld. Sigurmarkið skoraði Cristiano Ronaldo undir lok leiks.
„Þetta er ótrúlegt, alveg ótrúlegt að fá svona í grímuna á sér. Ég veit ekki hvernig þetta mark var, hvort einhver væri rangstæður eða ekki.
En það er leiðinlegt að eyða svona mikilli orku í yfir nítíu mínútur og fá þetta á sig. Við spiluðum rosalega vel varnarlega, geðrum vel sóknarlega þannig það er ógeðslega mikið jákvætt sem við getum tekið úr þessum leik.
En já, það er mjög svekkjandi að fá þetta í andlitið eftir að hafa eytt allri þessari orku í leikinn. “
Hvernig lítur þú á gluggann í heild sinni?
„Fyrri hálfleikurinn gegn Slóvakíu var mjög góður. Seinni var aðeins slakari, kannski vorum við þreyttir eða eitthvað.
En í leiknum í dag reyndum við að fá jafnvægi í þetta, sem við gerðum. Við sýndum það í kvöld að við getum strítt hvaða landsliði sem er á heimavelli. Eitt stig hefði verið svo sætt fyrir okkur að fá. Stig gegn Portúgal hefði verið sterkt fyrir okkur til að taka með í riðilinn en svona er þetta.
Við þurfum að fara að byrja að læra að klára leiki og sigra. Það kemur á næstunni.“
Laugardalsvöllur var fullur í fyrsta sinn í dágóðan tíma. Hörður segir það gefa leikmönnunum eldsneyti.
„Það gefur okkur rosalega mikið að fá fullan völl. Eins og við sáum í kvöld þá er stuðningurinn alveg ómetanlegur.
Ég vil bara þakka fólkinu sem kom fyrir, líka fólkinu fyrir utan völlinn. Svona á þetta að vera, svona spilum við best. Það þýðir ekki bara að mæta vel á stóru leikina, við þurfum líka fólk á minni leikina. Þetta er það sem gefur okkur eldsneyti.
Heimavöllurinn okkar er erfiður eins og Portúgalarnir vissu og sögðu fyrir leik. Við þurfum að halda því orðspori áfram,“ sagði Hörður að lokum.