„Ég er mjög vonsvikinn,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins eftir svekkjandi tap gegn Portúgal, 1:0, í J-riðli undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.
„Leikmennirnir stóðu sig virkilega vel og við vörðumst mjög vel í leiknum. Strákarnir hlupu mikið og lögðu mikið á sig en þetta varð erfitt eftir að við misstum mann af velli. Það er oft erfitt að gera breytingar í þannig stöðu og við lentum í vandræðum, sérstaklega á miðsvæðinu, enda menn orðnir þreyttir og meira svæði fyrir þá að passa.
Við vorum líka óheppnir með sumar ákvarðanirnar en við börðumst fram í rauðan dauðann og unnum vel hvor fyrir annan. Við spiluðum líka án Arons Einars Gunnarssonar, Arnórs Sigurðssonar og Birkis Bjarnasonar. Við eigum þá alla inni sem eru jákvæðar fréttir,“ sagði Hareide.
Íslenska liðið tapaði báðum leikjum sínum í júníglugganum og er í næstneðsta sæti riðilsins með þrjú stig, líkt og Bosnía, en Portúgal er með fullt hús stiga eða 12 stig í efsta sætinu og Slóvakía er í öðru sætinu með sjö stig.
„Heilt yfir þá voru úrslitin vond en frammistaðan góð. Við áttum að vinna Slóvakíu og við áttum ekki skilið að tapa gegn Portúgal. Við hefðum átt að vera með fjögur stig eftir þessa tvo leiki en í staðinn erum við með núll stig úr þessum glugga. Við þurfum að breyta óheppni í heppni.
Á sama tíma er ég ánægður með þá vegferð sem liðið er á. Þegar þú byggir hús þá þarftu að byrja á grunninum og við erum byrjaðir að byggja kjallarann núna. Ég er ánægður með hugarfar leikmannanna og hvernig þeir hafa staðið sig síðan ég tók við liðinu.
Strákarnir elska að spila fyrir Ísland og ég er fullur tilhlökkunar fyrir landsleikjaglugganum í september því ég tel okkur geta gert mjög góða hluti þar,“ sagði Hareide en Ísland mætir Lúxemborg á útivelli og Bosníu á heimavelli í september.