Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur átt afar erfiða viku. Uppeldispabbi hans lést langt um aldur fram á fimmtudaginn var, en þrátt fyrir það hefur leikmaðurinn spilað tvo heila fótboltaleiki í landsliðstreyjunni síðan, gegn Slóvakíu á laugardag og Portúgal í kvöld.
„Þetta hefur verið rosalega sveiflukennt. Ég er feginn að þetta sé búið og ég get einbeitt mér að mér og minni fjölskyldu. Það eru erfiðir dagar fram undan,“ sagði Guðlaugur við mbl.is eftir leikinn við Portúgal í kvöld.
Guðlaugur viðurkenndi að hann hefði þurft að hugsa málið, áður en hann tók þá ákvörðun að spila leikina tvo.
„Ég viðurkenni að ég hugsaði um hvort ég hafði hausinn í það. Ég ákvað svo að spila og ég sé ekki eftir því. Ég veit að pabbi minn hefði viljað að ég spilaði. Ég spilaði fyrir hann,“ sagði Guðlaugur, sem er þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið undanfarna daga.
„Ég er virkilega þakklátur þjálfurunum, teyminu og liðsfélögunum. Ég er líka þakklátur þjóðinni, sem er búin að vera að senda á mig. Ég vil þakka þeim frá mínum dýpstu hjartarótum. Fótboltinn er ekki það mikilvægasta og maður áttar sig á því þegar svona gerist.“