„Nei, alls ekki,“ svaraði Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Þróttar úr Reykjavík, í samtali við mbl.is aðspurð hvort hún væri sátt við eitt stig eftir 2:2-jafntefli við Breiðablik í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.
Þróttur komst í 2:1, eftir að Breiðablik hafði komist í 1:0, en Taylor Ziemer jafnaði fyrir Breiðablik rúmum 20 mínútum fyrir leikslok.
„Þær voru aðeins sterkari en við í byrjun og nýttu sér það. Eftir það fannst mér við eiga leikinn og eiga fleiri og hættulegri færi. Ég hafði ekkert svo mikið að gera. Það var ömurlegt að fá þetta mark á okkur þegar við vorum komnar yfir. Við gerðum mistök að gefa henni tækifæri til að taka þetta skot og svona er þetta stundum,“ sagði Íris og hélt áfram:
„Við erum oft yfirgnæfandi betri en það hefur verið erfitt að skora. Það er að koma, við skoruðum tvö í kvöld og hefðum alveg getað skorað þrjú til viðbótar.“
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, tveir af bestu leikmönnum Þróttar, voru ekki með í kvöld. María Eva Eyjólfsdóttir og Katla Tryggvadóttir sneru hins vegar aftur.
„Það er alltaf erfitt þegar það vantar svona sterka leikmenn, en við tækluðum það ótrúlega vel. Það var gott að fá Maríu og Kötlu aftur. Það kemur maður í manns stað og við erum ótrúlega góð heild,“ sagði Íris.
Þróttur er í fimmta sæti með 14 stig, en þó aðeins sex stigum á eftir toppliði Vals, í þéttum pakka í efri hluta deildarinnar.
„Mér finnst þetta ótrúlega spennandi. Þetta er eitt besta mót sem ég hef upplifað. Það er rosalega gaman að það séu ekki bara tvö lið að berjast um þetta, heldur fimm eða sex lið. Það er yndislegt að sjá hvað við eigum margar góðar fótboltakonur,“ sagði Íris.