Sá möguleiki er fyrir hendi að Breiðablik mæti Zalgiris Vilnius frá Litháen, liði Árna Vilhjálmssonar, í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta.
Takist Blikum ekki að vinna forkeppni Meistaradeildarinnar sem verður leikin á Kópavogsvelli 27. og 30. júní, fara þeir í 2. umferð Sambandsdeildarinnar.
Ef Breiðablik tapar fyrir Tre Penne frá San Marínó í undanúrslitum forkeppni Meistaradeildarinnar 27. júní leikur liðið í 2. umferð Sambandsdeildar gegn Olimpia Ljubljana frá Slóveníu eða Valmiera frá Lettlandi.
Ef Breiðablik vinnur Tre Penne en tapar fyrir Buducnost eða Atlétic d'Escaldes í úrslitaleik forkeppninnar leikur liðið í 2. umferð Sambandsdeildar gegn Zalgiris Vilnius frá Litháen, sem Árni Vilhjálmsson leikur með, eða Struga frá Norður-Makedóníu.
Ef Breiðablik vinnur forkeppnina en tapar fyrir Shamrock Rovers frá Írlandi í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar, færist liðið yfir í 2. umferð Sambandsdeildarinnar og leikur þá gegn KÍ Klaksvík frá Færeyjum eða Ferencváros frá Ungverjalandi.
Eins og áður hefur komið fram gætu Blikar hins vegar mætt FC Köbenhavn frá Danmörku í 2. umferð Meistaradeildarinnar, vinni þeir forkeppnina.