Dómurinn var rangur og markið átti að standa

Bryndís Rut Haraldsdóttir fyrirliði Tindastóls og samherjar hennar fengu skell …
Bryndís Rut Haraldsdóttir fyrirliði Tindastóls og samherjar hennar fengu skell í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, er þjálfari Tindastóls í Bestu-deild kvenna í fótbolta. Hann þurfti að horfa upp á annað 5:0 tap liðsins í röð í kvöld þegar Stólarnir heimsóttu Þór/KA í 9. umferð deildarinnar.

Donni, þetta var skrýtinn leikur. Það var 0:0 í hálfleik. Þið komið svo með mikinn sóknarþunga inn í seinni hálfleik, skorið mark sem dæmt er af og svo bara koma þrjú mörk á sjö mínútum frá Þór/KA. Hvað vilt þú segja um þetta allt saman?

„Þetta var bara svona, eins og þú lýsir því. Mér fannst við skora löglegt mark en dómarinn dæmdi því miður aukaspyrnu. Það sáu það allir sem vilja það sjá að dómurinn var rangur og markið átti að standa. Leikmaður okkar stekkur upp og skallar boltann í markið. Markvörðurinn reynir að ná boltanum en rekst í markaskorarann okkar og dettur. Þetta var einmitt þannig.“

Þið komuð mjög sterkt inn í seinni hálfleikinn eftir frekar lokaðan fyrri hálfleik þar sem þið gáfuð nánast engin færi á ykkur. Ef eitthvað var þá virtist liggja mark í loftinu hjá ykkur en þau komu hinum megin.

„Það var bara algjör skita að fá þrjú mörk á okkur á sjö mínútum. Það eru einu alvöru vonbrigði dagsins, að hafa ekki náð að svara því betur að fá á sig fyrsta markið. Það var sérlega svekkjandi að sjá annað markið hjá þeim og þá bara datt botninn úr þessu hjá okkur.

Nú er einfaldlega tími til að fara að hugsa um næsta leik. Við getum tekið með okkur þessar frábæru fyrstu 60 mínútur sem við spiluðum í kvöld. Við þurfum að gíra hausinn í það að vera einbeittari og taka sigur í næsta leik“ sagði Donni, nokkuð brattur þrátt fyrir skellinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert