Fjögurra marka fjör á Kópavogsvelli

Agla María Albertsdóttir sækir að marki Þróttar í leiknum í …
Agla María Albertsdóttir sækir að marki Þróttar í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik og Þróttur úr Reykjavík skildu jöfn, 2:2, í Bestu deild kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í níundu umferðinni í kvöld. 

Breiðablik byrjaði af krafti og fyrsta markið kom strax á áttundu mínútu. Katrín Ásbjörnsdóttir kláraði þá vel í teignum eftir fyrirgjöf frá Ástu Eir Árnadóttur frá hægri.

Blikar voru áfram sterkari næstu mínútur og Taylor Ziemer átti þrjú skot utan teigs með stuttu millibili, án þess að ná að koma boltanum í netið. Íris Dögg Gunnarsdóttir varði frá henni í tvígang og einu sinni skaut hún yfir.

Þróttarar komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og voru gestirnir betri síðustu 20 mínúturnar. Þróttarar náðu í nokkrar hornspyrnur og Katla Tryggva­dótt­ir fékk úrvalsfæri til að jafna á 39. mínútu þegar hún slapp ein í gegn en Telma Ívarsdóttir gerði glæsilega í að verja frá henni. Var staðan í hálfleik því 1:0, Breiðabliki í vil.

Freyja Karín Þorvarðardóttir var nálægt því að jafna fyrir Þrótt á 52. mínútu er hún gaf fyrir markið og boltinn fór yfir Telmu í markinu og í stöngina. Aðeins mínútu síðar átti Ziemer sitt besta skot til þessa er hún setti boltann í slána í teignum og bæði lið því nálægt því að skora snemma í seinni hálfleik.

Áhorfendur þurftu þó ekki að bíða lengi eftir öðru marki leiksins og það gerði Sierra Lelii fyrir Þrótt á 61. mínútu er hún rak endahnútinn á afar góða sókn með því að mæta á fjær og ýta boltanum yfir línuna eftir fyrirgjöf frá Tanya Boychuk.

Aðeins tveimur mínútum síðar sá Boychuk um að koma Þrótti yfir með föstu skoti rétt utan teigs. Telma átti að gera betur í markinu, því hún missti boltann klaufalega undir sig.

Þróttarar voru yfir í fimm mínútur, því Ziemer skoraði loksins á 68. mínútu með hnitmiðuðu skoti utarlega í teignum eftir hornspyrnu frá hægri. Var það fimmta eða sjötta tilraun þeirra bandarísku í leiknum og loks fékk hún að fagna. Reyndist það síðasta mark leiksins.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á föstudag.  

Breiðablik 2:2 Þróttur R. opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma. Fáum við sigurmark?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert