Gott gengi nýliða FH í Bestu deild kvenna í knattspyrnu hélt áfram í kvöld þegar liðið bar sigurorð af ÍBV, 2:1, í 9. umferð deildarinnar í Kaplakrika. FH hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð.
Leikurinn hófst með látum þar sem FH náði forystunni eftir aðeins fimm mínútna leik þegar Bandaríkjakonan Shaina Ashouri skoraði sitt fjórða deildarmark í sumar.
Landa hennar, Mackenzie George, átti þá fyrirgjöf með jörðinni frá hægri, Ragna Sara Magnúsdóttir í vörn ÍBV náði að hreinsa frá en ekki langt. Ashouri tók við boltanum rétt innan vítateigs, lagði hann fyrir sig og smellti boltanum hárnákvæmt og glæsilega niður í fjærhornið framhjá stærðarinnar pakka fyrir framan sig.
Eftir markið hugðust FH-ingar ganga á lagið þar sem Ashouri og sérstaklega George ullu varnarmönnum ÍBV sífelldum usla. George og Esther Rós Arnarsdóttir fengu báðar dauðafæri en brást bogalistin.
Var það því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar gestirnir jöfnuðu metin á 21. mínútu.
Heidi Giles átti þá misheppnaða sendingu út úr vörn FH, Thelma Sól Óðinsdóttir vann boltann, sem barst til Þóru Bjargar Stefánsdóttur. Hún var fljót að hugsa, sendi boltann rakleitt inn fyrir þar sem kanadíski sóknarmaðurinn Holly O’Neill var mætt í frábærlega tímasett hlaup.
O’Neill var skyndilega alein í gegn andspænis Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH, fór auðveldlega framhjá henni og renndi boltanum í autt markið. Var þetta hennar annað deildarmark í sumar.
Leikurinn róaðist töluvert eftir jöfnunarmarkið en vann ÍBV sig aðeins betur inn í leikinn á mínútunum sem fylgdu.
Undir lok fyrri hálfleiks komst FH nálægt því að ná forystunni að nýju þegar hornspyrna frá hægri barst rétt fyrir framan marklínun en fór af Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV og aftur fyrir áður en Esther Rós náði til boltans.
Síðari hálfleikur var töluvert rólegri en sá fyrri.
Bæði lið voru þéttari fyrir í vörninni og reyndu mestmegnis langskot, sem voru ekki líkleg til árangurs.
Þegar síðari hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður, á 69. mínútu, náði FH forystunni að nýju.
Ashouri tók þá hornspyrnu frá vinstri, boltinn barst inn að miðjum markteignum þar sem Guðný fór illa að ráði sínu og sló boltann í eigið net. Vildi markvörðurinn fá dæmda aukaspyrnu en ekki var að sjá að FH-ingurinn sem stóð hjá henni hafi gert nokkuð af sér.
Olga Sevcoca komst næst því að jafna metin fyrir ÍBV átta mínútum fyrir leikslok þegar Örnu Eiríksdóttur tókst að skalla skot lettnesku landsliðskonunnar beint úr aukaspyrnu aftur fyrir endamörk.
FH hélt út og vann sinn fjórða sigur í Bestu deildinni í röð og þann sjötta í röð í öllum keppnum, en Hafnarfjarðarliðið hefur einnig unnið tvo bikarleiki, þar á meðal gegn ÍBV í átta liða úrslitum í síðustu viku.
Með sigrinum fór FH upp í þriðja sætið þar sem liðið er með 16 stig, jafn mörg og Breiðablik í öðru sæti.
ÍBV er áfram í níunda og næstneðsta sæti með 7 stig.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.