Frá Svíþjóð til Belgíu

Diljá Ýr Zomers er gengin til liðs við OH Leuven.
Diljá Ýr Zomers er gengin til liðs við OH Leuven. Ljósmynd/IFK Norrköping

Knattspyrnukonan Diljá Ýr Zomers er gengin til liðs við belgíska úrvalsdeildarfélagið OH Leuven.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Diljá Ýr, sem er 21 árs gömul, kemur til félagsins frá Norrköping í Svíþjóð.

Hún hefur skorað eitt mark í 12 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hún hefur einnig leikið með Häcken í Svíþjóð.

Diljá Ýr á að baki 50 leiki í efstu deild hér á landi með Val, Stjörnunni og FH og þá á hún að baki fjóra A-landsleiki.

OH Leuven hafnaði í 2. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, fjórum stigum á eftir Anderlecht, eftir að hafa verið með tveggja stiga forystu á toppnum eftir hefðbundna tvöfalda umferð. Ellefu lið leika í deildinni sem er skipt í efri og neðri hluta að tvöfaldri umferð lokinni.

OH Leuven átti sjö leikmenn í síðasta landsliðshópi Belgíu og nokkrar þeirra léku gegn Íslandi á EM síðasta sumar. 

Landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson leikur með karlaliði félagsins sem einnig spilar í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert