Roberto Martínez, landsliðsþjálfari Portúgals, segir að framtíðin sé björt hjá íslenska liðinu þrátt fyrir tap gegn Portúgal, 0:1, í J-riðli undankeppni EM karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gær.
Cristiano Ronaldo skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu en íslenska liðið lék einum manni færri, síðustu mínúturnar, eftir að Willum Þór Willumsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 81. mínútu.
Ísland er með þrjú stig í næstneðsta sæti riðilsins, níu stigum minna en topplið Portúgals og sjö stigum minna en Slóvakía sem er í öðru sætinu.
„Auðvitað á Ísland enn þá möguleika á því að komast á EM,“ sagði Martínez á blaðamannafundi portúgalska liðsins á Laugardalsvelli í gær.
„Ég elskaði að horfa á íslenska liðið spila á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016. Það er ákveðin endurnýjun í gangi hjá liðinu núna og þeir eru með marga unga leikmenn sem eru allir mjög spennandi.
Framtíðin er svo sannarlega björt hjá íslenska liðinu og ég sá það strax hversu vel þjálfaðir þeir eru. Åge Hareide hefur gert frábæra hluti með liðið, á mjög stuttum tíma, og þetta er lið sem getur náð langt,“ bætti Martínez við.