„Hannes átti þessa stöðu í yfir tíu ár,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap fyrir Portúgal í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gær.
„Við vorum búnir að verjast gífurlega vel í svona 89 mínútur og svo fáum við þetta mark á okkur, sem var bara vel gert hjá þeim. Þetta er bara mjög pirrandi, ég er mjög svekktur.
Við þurfum bara að reyna að snúa þessu við, öll 50/50 atriði eru að detta með andstæðingum okkar og við þurfum að breyta því,“ sagði Rúnar um leikinn.
Rúnar var síðar spurður af blaðamanni um hvernig honum liði með sjálfan sig í marki Íslands, þar sem markvörðurinn gaf einlægt svar.
„Já, já, mér fannst ég vera góður í þessum leik og í síðasta leik. Það er aldrei hægt að eiga fullkominn leik og alltaf hægt að bæta helling, en ég á flottar vörslur sem halda okkur inn í leiknum.
Ég veit að mér er treyst með boltann í löppunum og það myndar ákveðna ró líka fyrir liðið. Mér líður alltaf vel á vellinum, þetta er eitthvað sem ég er búinn að gera frá því ég var þriggja ára.
Það er fínt að fá í fyrsta skipti smá ást frá þjóðinni núna. Það er eitthvað sem ég hef þurft að vinna mér inn fyrir, sem er bara eðlilegt. Hannes Halldórsson átti þessa stöðu í 10-12 ár og núna loksins er ég búinn að fá smá traust.
Ég er að fá traust frá þjóðinni og ég þarf að gefa þeim eitthvað til baka,“ sagði Rúnar að lokum.