„Ég upplifði leikinn þannig að þetta hafi verið góð frammistaða hjá liðinu. Við náðum að spila vel,“ sagði Todor Hristov, þjálfari kvennaliðs ÍBV í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins fyrir FH í Bestu deildinni í kvöld.
„Ég þarf að sjá þetta aftur en mistök sem við gerðum í seinni hálfleik reyndust okkur svolítið dýr. Svona er fótboltinn og þetta gerist. Við höldum áfram með hausinn upp,“ hélt Todor áfram.
Sigurmark FH kom í síðari hálfleik og var skráð sem sjálfsmark Guðnýjar Geirsdóttir, markvarðar ÍBV, eftir hornspyrnu Shainu Ashouri frá vinstri. Guðný mótmælti harkalega og vildi fá dæmt brot. Spurður út í atvikið sagði Todor:
„Ég þyrfti að sjá þetta aftur. Ég vil ekki vera fljótur að dæma en ef það er brot sem er ekki dæmt þá er það bara eins og það er. Það gera allir mistök. Ég vil ekki fara í þessa átt, þetta gerðist bara.“
Eftir því sem blaðamaður gat best séð virtist Guðný einungis hafa misreiknað boltann og enginn FH-ingur brotið á henni.
Gengi ÍBV hefur ekki verið sem best að undanförnu og er liðið í næstneðsta sæti Bestu deildarinnar með 7 stig að níu umferðum loknum.
„Fyrst og fremst vil ég segja að við vinnum að því á hverjum degi að bæta okkur og gera betur. Við erum með mjög ungt lið sem við erum mjög stoltir af.
Það er mjög gaman að sjá bætingar hjá þessum stelpum sem við erum að reyna að gefa tækifæri og spila margar mínútur.
Þegar ég segi að við eigum að gera betur er það bara hluti af okkar starfi og við vinnum að því á hverjum degi að bæta okkur. Við vonum að það muni gangi vel hjá okkur seinni hlutann í deildinni,“ sagði Búlgarski þjálfarinn.
En hefur hann áhyggjur af framhaldinu?
„Að hafa áhyggjur er hluti af starfinu og ég hef alveg smá áhyggjur en maður verður að halda áfram og gera sitt besta á hverjum degi. Það er hluti af fótboltanum,“ sagði Todor að lokum í samtali við mbl.is.