Kannski var veðrið of gott

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fyrirliði Stjörnunnar með boltann í kvöld en …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fyrirliði Stjörnunnar með boltann í kvöld en hún skoraði mark Garðabæjarliðsins. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við erum mest svekkt með hvað við vorum dauft lið inni á vellinum, bæði lítill talandi og hvatning og einnig þá færðist boltinn mjög hægt, við náðum ekki að skipta á milli kanta og búa til neinar sérstakar opnanir,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 2:1 tap gegn Selfossi á útivelli í Bestu deildinni í kvöld.

„Ég get ekki svarað fyrir það af hverju við vorum ekki nógu peppaðar inn í leikinn. Það var erfitt að spila á vellinum, uppá að reyna að spila hratt og þess vegna fengum við ekki fleiri góða spilkafla. Við náðum bara ekki að gíra okkur upp í þetta og við berum öll ábyrgð á því saman sem lið. Við eigum að vera miklu tilbúnari. Kannski var of gott veður, eða of hlýtt eða eitthvað,“ sagði Kristján og glotti. 

Stjarnan var mun meira með boltann í leiknum en skapaði ekki mörg færi. Liðið fékk til að mynda níu hornspyrnur og uppúr einni þeirra kom mark liðsins í kvöld.

„Nú er það orðið þannig að fótbolti í dag snýst ekkert um það að halda boltanum mikið. Liðin eru orðin það góð að verjast að þeim er yfirleitt alveg sama hversu há

possession talan er. Og hún má helst ekki vera of há til þess að þú sért að búa til einhver færi. Það er svo erfitt að skora mörk í fótbolta, enda voru mörkin í kvöld öll mjög slysaleg, öll þrjú og varla færi í leiknum. En við þurfum aðrar hreyfingar í og við teiginn til að búa til eitthvað meira,“ sagði Kristján ennfremur.

Stjörnunni var spáð Íslandsmeistaratitlinum víða en stigasöfnun liðsins hefur verið langt undir væntingum núna þegar deildarkeppnin er hálfnuð. Hverjar eru væntingar Stjörnuþjálfarans?

„Eins og staðan er núna þá erum við fjórum leikjum frá efsta sætinu, það er töluvert mikið, þannig að það fjarlægist. En á meðan það er tölfræðilegur möguleiki á að við förum þarna upp þá stefnum við á það. En við þurfum þá að vinna nánast hvern einasta leik sem eftir er. Við sjáum til, kannski verða fleiri óvænt úrslit,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert