Víti í súginn og Keflavík hirti stig af Val

Linli Tu skoraði mark Keflvíkinga í kvöld.
Linli Tu skoraði mark Keflvíkinga í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Keflavík og Valur skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á grasvellinum í Keflavík í kvöld.

Fyrir leikinn höfðu liðin mæst 36 sinnum frá árinu 1977 og má þess geta að Keflavík hefur aldrei unnið Val í efstu deild kvenna.

Valskonur voru sterkari aðilinn fyrsta korterið í fyrri hálfleik en heimakonur í Keflavík unnu sig svo fljótlega inn í leikinn með sólina og vindinn í bakið.

Á 15. mínútu átti Linli Tu hörkuskot í stöngina, sannkallað dauðafæri. Linli fékk boltann eftir að Dröfn Einarsdóttir hafði átt hörkuskot sem var varið af varnarmanni Vals og hrökklaðist svo til hennar.

Keflavík var sterkari aðilinn framan af og kom Tu liðinu yfir á 38.mínútu með skoti í nærhornið framhjá Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Valsara. Staðan orðin 1:0, sem var verðskulduð forysta hjá Keflavík.

Þannig var staðan í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik átti Dröfn hörkuskot í þverslána. Dröfn átti flottan leik í kvöld ásamt fleirum í öflugu liði Keflavíkur í kvöld.

Valskonur náðu svo að jafna strax á eftir, á 49.mínútu. Þar var að verki Bryndís Arna Níelsdóttir eftir að hún fékk boltann í vítateignum og skoraði laglegt mark framhjá Veru Varis í marki Keflvíkinga.

Staðan orðin 1:1.

Bæði lið skiptust í kjölfarið á að sækja en gestirnir frá Hlíðarenda voru þó ívið sterkari. Vörn Keflavíkur hélt vel og skipulagið var gott.

Það var svo á 80.mínútu sem Valskonur fengu víti. Anita Lind Daníelsdóttir braut á Ásdísi Karen Halldórsdóttur, sem var virkilega spræk í kvöld, innan vítateigs.

Varamaðurinn Fanndís Friðriksdóttir steig á punktinn en þrumaði yfir.

Valskonur reyndu hvað þær gátu að ná yfirtökunum, en þeim gekk samt erfiðlega að skapa hættuleg færi.

Leikurinn fjaraði út og lokatölur 1:1.

Heimakonur geta gengið aldeilis sáttar frá leiknum. Það má með sanni segja að þetta hafi verið bestu úrslit þeirra á tímabilinu enda tóku þær stig af toppliðinu.

Val­ur er þá með 20 stig á toppi deild­ar­inn­ar en Kefla­vík lyft­ir sér upp í sjötta sætið með 12 stig.

Keflavík 1:1 Valur opna loka
90. mín. Uppbótartími er 4 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert