Langþráður sigur Selfyssinga

Sif Atladóttir fagnar Barbáru Sól Gísladóttur sem skoraði fyrsta mark …
Sif Atladóttir fagnar Barbáru Sól Gísladóttur sem skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Selfoss. mbl.is/Óttar Geirsson

Sel­foss fékk í kvöld sín fyrstu stig í fimm leikj­um í Bestu deild kvenna í fót­bolta með því að sigra Stjörn­una 2:1 á Sel­fossi. Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir að staðan væri 2:1 í leikhléi var ótrúlega lítið að frétta í fyrri hálfleik. Selfoss komst yfir á 14. mínútu með frábæru marki Barbáru Sólar Gísladóttur, nýs framherja liðsins, en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir jafnaði með skalla eftir hornspyrnu á 28. mínútu, þar sem Selfyssingar gleymdu sér í dekkningunni. Þetta var eina marktilraun Stjörnunnar í fyrri hálfleik, en gestirnir voru þó meira með boltann.

Færin voru áfram af mjög skornum skammti og aftur kom mark eftir fast leikatriði. Jimena López gerði virkilega vel að skalla inn aukaspyrnu frá Sigríði Theodóru Guðmundsdóttur á 34. mínútu.

Selfoss leiddi 2:1 í hálfleik, eftir þennan tíðindalausa fyrri hálfleik en ég held að heimakonum hafi verið slétt sama um gæðin inni á vellinum. Þessi leikur snerist um baráttu og einfaldlega að ná í þrjú stig. Það voru þó mikil batamerki á leik botnliðsins í kvöld og þær báru höfuðið hátt eftir að hafa verið fljótar að setja hökuna niður í bringu í síðustu leikjum.

Það var ekki mikið að frétta uppvið mörkin í seinni hálfleiknum en bæði lið komust þó í álitlegar stöður. Stjarnan var mun nær því að jafna en Idun-Kristine Jorgensen, markvörður Selfoss, kom í veg fyrir það með frábærri vörslu eftir skot Gunnhildar Yrsu. Stjarnan fékk fimm hornspyrnur í seinni hálfleiknum en Selfyssingar létu ekki grípa sig tvisvar í landhelgi og stönguðu allt frá þar sem þær Jimena López og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir voru frábærar í vörninni.

Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss ennþá á botni deildarinnar, nú með 7 stig eins og ÍBV. Stjarnan er áfram í 6. sætinu og þarf mun beinskeyttari sóknarleik ætli liðið sér að klífa töfluna.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Selfoss 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 4 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert