Að minnsta kosti einn áhorfandi á landsleik Íslands og Portúgals í J-riðli undankeppni karla í knattspyrnu var leiddur burt í handjárnum af Laugardalsvelli í gær.
Leiknum lauk með naumum sigri Portúgals, 1:0, en Cristiano Ronaldo skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu.
Einn stuðningsmaður rauk inn á völlinn eftir að Ronaldo kom portúgalska liðinu yfir og þá voru nokkrir sem hlupu inn á völlinn eftir að flautað var til leiksloka með það fyrir augum að nálgast Ronaldo.
Rétt áður en blaðamannafundur portúgalska liðsins hófst var aðili sem hafði hlaupið inn á völlinn, leiddur í gegnum leikmannagöngin í handjárnum.