Leikmenn slegnir vegna handarbrotsins: Þvílík virðing

Jóhann Kristinn Gunnarsson og Sandra María Jessen ræða málin. Sandra …
Jóhann Kristinn Gunnarsson og Sandra María Jessen ræða málin. Sandra handarbrotnaði í leiknum í kvöld og var flutt á brott með sjúkrabíl. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA lagði Tindastól 5:0 í kvöld í Bestu-deild kvenna í fótbolta. Leikurinn þróaðist nokkuð sérkennilega en staðan í hálfleik var 0:0.

Stólarnir voru svo í hörkusókn fyrsta kortérið í seinni hálfleik og virtist mark frá þeim væntanlegt. Þór/KA skoraði hins vegar þrjú mörk á einu bretti og gerði þá út um leikinn.

Þjálfari Þórs/KA, Jóhann Kristinn Gunnarsson, var nokkuð glaðbeittur eftir sigurinn. Slæmt handarbrot fyrirliðans, Söndru Maríu Jessen, skyggði hins vegar á gleðina en hún yfirgaf völlinn í lok fyrri hálfleiks.

„Ég er gríðarlega ánægður með að hafa unnið þennan leik. Þetta var stál í stál allan fyrri hálfleikinn og við sáum það alveg fyrir að Stólarnir myndu byrja á að verjast vel og halda markinu sínu hreinu fram í hálfleik. Þetta gekk allt eftir og við vorum bara alveg á brúninni með leikinn þangað til við náðum inn fyrsta markinu.

Sandra María meiddist það illa í lok fyrri hálfleiks að hún þurfti að fara með sjúkrabíl og það sló okkur virkilega út af laginu. Það sást alveg á leik okkar fyrsta kortérið í seinni hálfleik að leikmenn voru slegnir.

Undir svona aðstæðum hefur maður séð lið koðna niður og ég var farinn að óttast um að þetta gæti farið illa. En þvílík virðing á mína leikmenn að ná að jafna sig og koma til baka. Þær sem komu inn af bekknum í dag eiga allar hrós skilið fyrir sitt framlag.“

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn hjá okkur nokkuð góður og við hefðum átt að skora eitt mark. Tindastóll er með hörkulið og það er ekki að ástæðulausu að þær vinna Stjörnuna heima og ÍBV úti. Það má ekkert sofna á verðinum gegn þeim.“

Sært lið kemur til leiks

Nú eru komnir tveir  heimasigrar í röð og þið ætlið væntanlega að bæta þeim þriðja við á sunnudaginn þegar Stjarnan kemur í heimsókn.

„Það kemur sært lið til leiks. Stjarnan er mjög öflugt lið og þetta verður alvöru verkefni. Það er stutt á milli liðanna sem eru í kring um okkur í töflunni. Við getum spilað vel þegar sá gállinn er á okkur en völlurinn er ekki rennisléttur og það litar svolítið fótboltann sem næst upp á honum.“

Nú var heil umferð leikin í deildinni í dag og þrjú efstu liðin töpuðu öll tveimur stigum. Botnliðið vann og taflan þjappaðist bara saman. Hið hefðbundna tveggja umferða mót er hálfnað og þið sitjið í fjórða sæti, fimm stigum frá toppliðinu. Hvert ert þú að horfa með lið þitt á þessum tímapunkti?

„Þetta er góð spurning. Fyrir mót settum við okkur nokkur markmið saman. Aðalmarkmiðið var að enda í einu af sex efstu sætunum eftir 18 leiki. Deildin er það jöfn að það er ómögulegt annað en að halda sig við það í bili. Það verður haft barist um þessi sex efstu sæti og það verður erfitt að tryggja það. Öll liðin neðar í töflunni eru hörkulið og eru að taka stig hér og þar. Ég get svo ekki neitað því að við fáum blóðbragð í munninn að sjá hvað er stutt í næstu lið fyrir ofan okkur.

Auðvitað er stefnt á að sækja eins langt fram og hægt er. Við erum núna með 15 stig og í fyrra fengum við 17 stig. Það er því stutt í að ná einu markmiðinu, sem var að fá fleiri stig en í fyrra. Ég er ánægður með hópinn okkar, hvernig hann hefur stigið upp milli tímabila. Mér fannst við missa marga leikmenn þess vegna er ég sérlega ánægður með hvert við erum komin með liðið.“

Missir alla vega af þremur leikjum

Nú er fyrirséð að Sandra María verði frá um einhvern tíma. Ertu uggandi yfir því?

„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá eru að koma alls kyns landsliðsverkefni, sem gera júlímánuð nánast leikjalausan hjá okkur. Í augnablikinu sé ég fyrir mér að við verðum án hennar alla vega næstu þrjá leiki, gegn Stjörnunni, Keflavík og ÍBV.

Þetta verður bara áskorun fyrir okkar hóp. Ef það vantar Söndru þá er það bara þannig og það kemur einhver annar inn. Við erum ekkert hrædd við þetta. Það verður þá leikið þéttar í ágúst og vonandi kemur hún sterk inn í þá törn.

Þetta er lang leiðinlegast fyrir hana sjálfa. Hún er búin að vera á fljúgandi ferð í sumar og búin að leggja mjög mikið á sig. Ég get lofað þér því að hún hefði verið í landsliðshópnum sem er að fara í verkefni núna í júlí. Ég finn rosalega mikið til með henni,“ sagði þjálfarinn góðkunni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert