Óskar Hrafn gæti þurft að kljást við einkasoninn

Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Takist Íslandsmeisturum Breiðabliks að komast áfram í 2. umferð Meistaradeildar karla í knattspyrnu mætir liðið Köbenhavn frá Danmörku en dregið var í aðra umferð keppninnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í morgun.

Um afar áhugavert einvígi yrði að ræða en Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, er faðir Orra Steins Óskarssonar sem er samningsbundinn Köbenhavn.

Þeir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson eru einnig samninsbundnir Köbenhavn og því yrði um alvöru Íslendingaslag að ræða.

Breiðablik þarf hins vegar að fara í gegnum forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir fyrst Tre Penne frá San Marínó 27. júní og síðan Buducnost frá Svart­fjalla­landi eða Atlétic Club d'Escaldes frá Andorra 30. júní en leikið verður á Kópavogsvelli.

Komist liðið áfram í 1. umferðina þá mæta Blikar Shamrock Rovers frá Írlandi og þeir þurfa að vinna það einvígi, ætli liðið sér í næstu umferð.

Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert