Það verður enginn reiður

Taylor Ziemer í eldlínunni í kvöld.
Taylor Ziemer í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Taylor Ziemer tryggði Breiðabliki eitt stig gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í fótbolta er hún jafnaði í 2:2 á 68. mínútu með góðu skoti í bláhornið á Kópavogsvelli í kvöld.

„Þetta var gott og mikilvægt mark. Það er alltaf frábær tilfinning að skora fyrir framan stuðningsmennina og markið kom okkur aftur inn í leikinn,“ sagði sú bandaríska í samtali við mbl.is.

Leikurinn var mjög fjörlegur og bæði lið fengu fullt af færum til að skora fleiri mörk. Ziemer var vonsvikin að Breiðabliksliðið hafi ekki náð í þrjú stig í kvöld.

Fengum fleiri góð færi

„Þær fengu sín færi en við fengum fleiri góð færi. Við erum svekktar með að vinna ekki, því við viljum þrjú stig úr öllum leikjum. Þetta hefðu verið mikilvæg þrjú stig. En þetta er langt tímabil, við tökum eitt stig og einbeitum okkur að næsta leik.“

Ziemer átti fjölmargar skottilraunir í leiknum og skaut m.a. í slá, áður en hún skoraði loksins. Hún var ekki farin að örvænta, þegar hún skoraði loksins. „Þú mátt ekki hugsa þannig. Ef markið kemur, þá kemur það. Ég reyni að stressa mig ekki á hlutunum, heldur halda áfram og halda áfram að reyna.“

Hún er ánægð með þá stöðu sem liðið er í, í mikilli toppbaráttu og komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

„Við erum að komast í betri gír og við erum alltaf að bæta okkur. Okkur líður vel og við munum halda áfram að gera okkar besta í hverjum leik. Vonandi heldur það áfram og við höldum áfram að safna stigum,“ sagði hún.

Verður enginn reiður

Ziemer skoraði aðeins eitt mark í deildinni á síðustu leiktíð, en hún gerði sitt fjórða mark í sumar í kvöld.

„Ég spilaði miðvörð á síðustu leiktíð og það er erfitt að skora í þeirri stöðu. Ég er að spila framar núna og þjálfararnir og liðsfélagarnir vilja að ég skjóti. Það er gott að finna þetta traust. Það verður enginn reiður þótt eitthvað skot gangi ekki upp,“ sagði Ziemer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert