Bakvörðurinn Jimena López var besti maður vallarins þegar Selfoss vann langþráðan sigur í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar Stjarnan kom í heimsókn. Lokatölur í sumarsólinni á Selfossi urðu 2:1 og mexíkóska landsliðskonan skoraði sigurmark leiksins.
„Ég er mjög ánægð og stolt af liðinu, þetta var fín frammistaða hjá okkur og við börðumst vel fyrir stigunum,“ sagði López í samtali við mbl.is eftir leik en þetta var fyrsti sigur Selfoss í síðustu fimm leikjum í deild og bikar.
„Við skoruðum snemma en það létti ekki pressunni af okkur. Það er erfitt að halda forystunni á móti góðu liði eins og Stjörnunni en það sem skilaði þessu hjá okkur var ákveðnin í að vinna bæði fyrsta og annan bolta og á meðan fékk Stjarnan engan tíma til að sækja hratt eða færa boltann á milli kantanna. Það var lykilatriði fyrir okkur,“ bætti López við.
Hún tryggði Selfyssingum síðan sigurinn þegar hún skallaði inn góða aukaspyrnu frá Sigríði Theódóru Guðmundsdóttur á 34. mínútu. Hún var ánægð með fyrsta markið sitt í Bestu deildinni.
„Ég hef ekki verið sterk skallakona hingað til. En ég sá boltann og náði að stökkva upp á undan þeirri sem var að dekka mig og boltinn fór í netið,“ sagði hún hógvær og bætti við að sigurinn væri mikilvægur eftir erfiðar síðustu vikur.
„Þetta er risastórt fyrir okkur, bæði liðið og alla sem starfa hjá félaginu. Ég er stolt af því hvað við lögðum mikið á okkur í kvöld, það er ekki auðvelt að tapa leikjum ítrekað en við höldum í vonina og erum jákvæðar og héðan í frá liggur leiðin upp á við,“ sagði López að lokum.