Heil umferð var spiluð í Bestu-deild kvenna í dag og í kvöld. Á Þórsvellinum á Akureyri mættust stálin stinn þegar Þór/KA tók á móti Tindastól. Eftir markalausan klukkutíma í leiknum þá opnuðust flóðgáttir að marki Stólanna og áður en yfir lauk hafði Þór/KA skorað fimm mörk.
Fyrir leik var Þór/KA með tólf stig en Tindastóll átta.
Fyrri hálfleikurinn í kvöld var með rólegasta móti en Þór/KA var mun meira með boltann. Tókst heimakonum að ógna Stólunum í nokkur skipti og fór Sandra María Jessen fyrir sínu liði. Hún fékk langbesta færið eftir 40 mínútna leik. Þá fékk hún frábæra sendingu inn fyrir vörn Tindastóls. Náði hún að leika vinstra megin fram hjá Monicu Wilhelm í marki Stólanna en síðan sendi hún boltann fram hjá nærstönginni.
Mínútu seinna þurfti Sandra María að yfirgefa völlinn sárþjáð. Virðist sem hún hafi handarbrotnað og kom Amalía Árnadóttir inn á í stað Söndru Maríu.
Staðan var 0:0 í hálfleik og vandséð að það kæmi eitthvað af mörkum í seinni hálfleiknum, alla vega miðað við það sem var í gangi í þeim fyrri.
Tindastólskonur komu miklu ákveðnari inn í seinni hálfleikinn og fóru að sækja stíft. Þær voru líklegar til að skora og settu eitt skallamark. Það mark var hins vegar dæmt af en dómari leiksins taldi að brotið hafi verið á markverði Þórs/KA.
Nokkru síðar var staðan allt í einu orðin 3:0 fyrir Þór/KA. Heimakonur gengu í raun frá leiknum á sjö mínútna kafla með mörkum frá Dominique Randle, Karen Maríu Sigurgeirsdóttur og Unu Móeiði Hlynsdóttur.
Hulda Ósk Jónsdóttir kórónaði svo frábæran seinni hálfleik sinn með gullfallegu marki. Hún plantaði boltanum undir skeytin og kom Þór/KA í 4:0. Hún bætti við marki með síðustu spyrnu leiksins en það mark kom af vítapunktinum. 5:0 eru í raun ótrúlegar tölur miðað við gang leiksins og þá deyfð sem einkenndi bæði lið í fyrri hálfleik.
Hulda Ósk Jónsdóttir tók bara leikinn yfir síðasta hálftímann og fyllti þar skarð Söndru Maríu svo um munaði.
Þór/KA kom sér upp um eitt sæti, í það fjórða. Blessunarlega fyrir Tindastól þá tapaði ÍBV sínum leik og liðið er því enn í 8. sæti.