Víkingur úr Reykjavík gerði óvænt jafntefli við Grindavík þegar liðin áttust við í áttundu umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu. Á sama tíma unnu nýliðar Fram sterkan sigur á Aftureldingu.
Í leik Víkings og Grindavíkur, sem fram fór á Víkingsvelli, kom Jada Lenise Colbert gestunum úr Grindavík í forystu eftir einungis fimm mínútna leik.
Nadía Atladóttir var hins vegar búinn að snúa taflinu við með því að skora tvö mörk með stuttu millibili, á 22. og 25. mínútu.
Colbert jafnaði hins vegar metin fyrir Grindavík skömmu fyrir leikhlé með sínu öðru marki.
Það reyndist hins vegar ekki síðasta mark fyrri hálfleiks þar sem Sigdís Eva Bárðardóttir sá til þess að staðan væri 3:2, Víkingi í vil, þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikur var ekki nándar nærri jafn fjörugur en Colbert gerði sér lítið fyrir og fullkomnaði þrennuna 19 mínútum fyrir leikslok.
Þar við sat og 3:3-jafntefli niðurstaðan.
Víkingur er áfram á toppnum, nú með 19 stig, þremur stigum fyrir ofan HK í öðru sæti. Á Kópavogsliðið auk leik til góða á Víkinga.
Grindavík er í 5. sæti með 12 stig.
Fram fékk Aftureldingu í heimsókn í grannaslag í Úlfarsárdal og náðu heimakonur forystunni skömmu fyrir leikhlé þegar Breukelen Lachelle Woodard skoraði.
Ólína Sif Hilmarsdóttir tvöfaldaði forystu Fram á 69. mínútu áður en Inga Laufey Ágústsdóttir skoraði sárabótamark fyrir gestina úr Mosfellsbænum á 90. mínútu.
Með sigrinum fór Fram, sem vann 2. deild á síðasta tímabili, upp úr fallsæti þar sem liðið er nú í 8. sæti með 7 stig eftir átta leiki, einu stigi fyrir ofan KR í 9. sæti og þremur fyrir ofan Augnablik í botnsætinu.