„Ronaldo er magnaður leikmaður og frábær manneskja,“ sagði Roberto Martínez, landsliðsþjálfari Portúgals, á blaðamannafundi portúgalska liðsins eftir 1:0-sigur Portúgals gegn Íslandi í J-riðli undankeppni EM karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gær.
„Það er erfitt fyrir utanaðkomandi aðila að átta sig á leyndarmálinu hans en svo tók ég við landsliði Portúgals og fékk að kynnast honum betur. Þá uppgötvaði ég leyndarmál hans. Hann vill vera bestur og ástríðan sem hann hefur fyrir fótbolta er mögnuð.
Hann er 38 ára gamall en samt sem áður er hann alltaf mættur fyrstur á æfingu og hann er alltaf síðastur til að yfirgefa hana. Hann spilaði tvo leiki á 72 klukkustundum sem er magnað fyrir mann á hans aldri,“ sagði Martínez.
Ronaldo átti ekki sinn besta dag gegn íslenska liðinu en samt sem áður skoraði hann sigurmarkið á Laugardalsvelli í sínum 200. A-landsleik.
„Það kom aldrei til greina að taka hann af velli. Hann er alltaf hættulegur og hann var að koma sér í fínar stöður á vellinum. Í fótbolta þarftu að vera þolinmóður, sem og hann var, og hann uppskar mark í sínum 200. landsleik.
Ákefðin er enn þá til staðar hjá honum, þrátt fyrir að hann sé orðinn þetta gamall, og það er eitthvað sem marga unga leikmenn skortir,“ bætti Martínez við.