Skoraði þrennu fyrir Grindavík – endurkomusigur nýliðanna

Málin rædd í leiknum í kvöld.
Málin rædd í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Grindavík gerði góða ferð til Þorlákshafnar og hafði betur gegn nýliðum Ægis þegar liðin áttust við í 8. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Nýliðar Þróttar úr Reykjavík fengu Gróttu í heimsókn í Laugardal og unnu endurkomusigur.

Í Þorlákshöfn braut Símon Logi Thasaphong ísinn fyrir Grindavík eftir hálftíma leik og tvöfaldaði svo forystuna einungis tveimur mínútum síðar.

Ekki leið á löngu þar til Ivo Braz minnkaði muninn fyrir Ægi og var Grindavík 2:1 yfir í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik fullkomnaði Símon Logi hins vegar þrennuna og sá til þess að Grindavík fór með 3:1-sigur af hólmi.

Grindavík fór með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 14 stig, þremur stigum á eftir Fjölni í öðru sæti, en Grafarvogsliðið á leik til góða.

Ægir er sem fyrr á botninum með einungis eitt stig.

Í Laugardal kom Grímur Ingi Jakobsson gestunum af Seltjarnarnesi í forystu eftir níu mínútna leik.

Grótta hélt marki sínu hreinu lengi vel en tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok jafnaði Hinrik Harðarson metin fyrir Þrótt.

Aðeins fjórum mínútum síðar var Jörgen Pettersen búinn að snúa taflinu við fyrir Þrótt og tryggði heimamönnum kærkominn sigur.

Þróttur er áfram í áttunda sæti deildarinnar en nú með tíu stig, sex stigum frá fallsæti.

Grótta er rétt ofar, í sjötta sæti, einnig með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert