Söknuðu Arons Einars mjög mikið

Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide og Aron Einar Gunnarsson.
Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide og Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er með bakið upp við vegg í J-riðli undankeppi EM 2024 eftir töp gegn Slóvakíu og Portúgal á Laugardalsvelli á dögunum.

Ísland er með 3 stig í fimmta sæti riðilsins, 9 stigum minna en topplið Portúgals og 7 stigum minna en Slóvakía sem er í öðru sætinu en tvö efstu lið riðilsins komast beint í lokakeppnina sem haldin verður í Þýskalandi næsta sumar.

Ísland tapaði 2:1 gegn Slóvakíu hinn 17. júní og svo 1:0 gegn Portúgal á þriðjudaginn en það var stórstjarnan Cristiano Ronaldo sem skoraði sigurmarkið á 89. mínútu.

„Heilt yfir var þetta nokkuð jákvætt myndi ég segja,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings úr Reykjavík í Bestu deild karla í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leikjunum tveimur.

Framlagið til fyrirmyndar

Arnar hrósaði landsliðsþjálfaranum Åge Hareide fyrir það hvernig hann nálgaðist leikina tvo.

„Mér fannst mjög klókt hjá honum hvernig hann nálgaðist verkefnið. Í grunninn var liðið að spila 4-4-2 með smá áherslubreytingum og það var farið aftur í sömu gildin og virkuðu svo vel fyrir okkur fyrir ekki svo löngu síðan. Það gladdi mig mikið að sjá hversu vel Willum Þór Willumsson kom inn í þetta. Ég hef beðið lengi eftir því að hann fengi tækifæri og hann nýtti það svo sannarlega. Það er oft talað um að menn passi illa í búninginn þegar illa gengur en búningurinn smellpassaði á hann strax frá fyrstu mínútu.

Á sama tíma var mjög slæmt að missa Aron Einar Gunnarsson út og liðið saknaði hans mjög mikið,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert