Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA og landsliðskona Íslands í knattspyrnu, handarbrotnaði í kvöld þegar Akureyrarliðið vann Tindastól í Bestu deild kvenna á Þórsvellinum.
Akureyri.net birti myndasyrpu af atvikinu þar sem sést mjög vel hvernig þetta atvikaðist en Sandra fékk boltann í höndina með þessum afleiðingum.
Atvikið átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks og var Sandra flutt á brott með sjúkrabíl. Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA kvaðst vonast til þess að hún myndi ekki missa af nema þremur leikjum, vegna þess hve fáir leikir eru í deildinni í júlímánuði og sagði við mbl.is að hún gæti vonandi byrjað aftur að spila í ágúst.