Aftur vann HK í sjö marka Kópavogsslag

Hassan Jalloh og Davíð Ingvarsson í leiknum í kvöld.
Hassan Jalloh og Davíð Ingvarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Nýliðar HK unnu sigur á nágrönnum sínum, Íslandsmeisturum Breiðabliks, í annað sinn í sumar þegar liðin áttust við í 12. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Kórnum í kvöld. Lauk leiknum með 5:2-sigri heimamanna.

Leikurinn fór einkar rólega af stað þar sem Blikar héldu boltanum vel en náðu ekki að skapa sér færi.

Á 26. mínútu dró til tíðinda þegar HK náði forystunni. Ívar Örn Jónsson tók þá aukaspyrnu utan af velli, boltinn barst á fjærstöngina þar sem fór af varnarmanni Breiðabliks, barst þaðan til Örvars Eggertssonar sem rúllaði boltanum niður í hornið af markteig.

Var þetta sjötta deildarmark Örvars á tímabilinu. Eftir að hann braut ísinn var ekki aftur snúið, enda færðist gífurlegt fjör í leikana.

Níu mínútum síðar jafnaði Breiðablik metin úr sinni annarri marktilraun í leiknum. Höskuldur Gunnlaugsson tók þá hornspyrnu frá vinstri, fann Stefán Inga Sigurðarson á fjærstönginni, hann stökk manna hæst og skallaði boltann í netið.

Örskömmu síðar fékk Stefán Ingi sannkallað dauðafæri til þess að snúa taflinu við þegar Gísli Eyjólfsson renndi boltanum fyrir markið en Arnar Freyr Ólafsson í marki HK varði skot Stefáns Inga af stuttu færi frábærlega.

Strax í næstu sókn, á 38. mínútu, var HK búið að ná forystunni á ný. Ívar Orri Gissurarson átti þá laglega fyrirgjöf af hægri kanti þar sem Atli Hrafn Andrason kom aðvífandi og skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Blikar fengu færi til þess að jafna metin áður en fyrri hálfleikur var úti. Eitt þeirra fékk Anton Logi Lúðvíksson sem slapp einn í gegn eftir stungusendingu Gísla.

Arnar Freyr kom hins vegar vel út á móti og varði laglega áður en Leifur Andri Leifsson hreinsaði frá.

Staðan að loknum afar fjörugum fyrir hálfleik var því 2:1, HK í vil.

Síðari hálfleikur hófst eins fjörlega og sá síðari endaði enda náði HK tveggja marka forystu strax í upphafi hans.

Viktor Örn Margeirsson hreinsaði þá boltanum í samherja sinn, Alexander Helga Sigurðarson, þaðan sem boltinn skoppaði inn fyrir á Arnþór Ara Atlason sem skoraði með glæsilegu, viðstöðulausu bylmingsskoti á lofti úr teignum.

Eftir mark Arnþórs Ara gegn sínum gömlu félögum róaðist leikurinn ögn en þó ekki lengi þar sem Stefán Ingi minnkaði muninn fyrir Breiðablik með sínu öðru marki og því tíunda í deildinni á tímabilinu þegar tæplega klukkutími var liðinn af leiknum.

Ekki leið á löngu þar til HK náði tveggja marka forystu að nýju. Á 62. mínútu skoraði Atli Arnarson með skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Ívars Arnar af vinstri kantinum.

Staðan orðin 4:2 og eftir það var sem vindurinn væri farinn úr seglum Blika, sem reyndu að minnka muninn en höfðu einfaldlega ekki erindi sem erfiði.

Varamaðurinn Brynjar Snær Pálsson rak svo smiðshöggið með fimmta marki HK þegar hann slapp einn í gegn eftir að Arnór Sveinn Aðalsteinsson rann í vörn Blika, Brynjar Snær skaut að marki, Anton Ari varði en þaðan lak boltinn í netið.

Frábær þriggja marka sigur HK því niðurstaðan og liðið þar með búið að vinna báða leiki liðanna í Bestu deildinni í sumar. Þeim fyrri lauk með 4:3-sigri HK í 1. umferð deildarinnar.

HK 5:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Brynjar Snær Pálsson (HK) skorar 5:2 Fimmta markið! Blikar eru fámennir til baka, boltinn berst til Brynjars Snæs eftir að Arnór Sveinn rennur, Brynjar Snær nær skotinu sem Anton Ari ver en í netið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka