„Þetta var geggjað í kvöld. Það er gaman að vinna 4:0 og halda hreinu,“ sagði Haraldur Einar Ásgrímsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 4:0-sigur liðsins á Fram í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.
„Við náðum að loka á spilið hjá Frömurunum. Þeir eru góðir þegar þeir ná stutta spilinu, en við gerðum vel í að stoppa það. Við unnum boltann framarlega á vellinum og þá gengur okkur vel,“ sagði hann.
FH var komið í 2:0 eftir aðeins 15 mínútur og var ekki að spyrja að leikslokum eftir það. „Við byrjuðum þetta mjög sterkt og planið var að keyra á þá fyrstu 15 mínúturnar. Það gekk mjög vel.“
Haraldur þurfti að sætta sig við nokkuð mikla bekkjarsetu hjá FH í fyrra, sem var hans fyrsta tímabil hjá liðinu. Í ár hefur hann fengið að spila meira og staðið sig vel.
„Þetta hefur verið upp og niður. Þetta var erfitt í fyrra, en það gengur vel núna. Maður er ekki að pirra sig þegar gengur svona vel. Ég er ánægður með gengið núna,“ sagði Haraldur. Gengi FH-inga er líka töluvert betra í ár en í fyrra.
„Það er miklu betri liðsheild í ár. Við erum allir saman í þessu og þegar við erum allir saman í þessu, þá gengur vel,“ sagði bakvörðurinn. Hann er uppalinn hjá Fram og lék með liðinu þar til hann skipti yfir í FH fyrir hálfu öðru ári.
„Það er ekki skrítið, en það er gaman að spila á móti gæjum sem þú æfðir með í mörg ár,“ sagði Haraldur.