Keflavík og Fylkir skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild karla í fótbolta á grasvellinum í Keflavík í kvöld.
Það var rigning og vindur en ágætlega hlýtt í Keflavík þegar Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, flautaði hann í gang. Keflvíkingar þráðu að ná sínum fyrsta heimasigri en í fyrri umferðinni unnu Keflvíkingar Fylki með sigurmarki í Árbæ í blálokin. Það er þeirra eini sigur í Bestu deildinni til þessa.
Fátt markvert gerðist framan af fyrri hálfleik en á 35. mínútu dró til tíðinda. Fylkismenn fengu þá hornspyrnu sem Pétur Bjarnason skallaði að marki og Mathias Rosenörn í marki Keflavíkur varði boltann inn í markið en kom honum svo út áður en aðstoðardómarinn flaggaði mark. Boltinn fór yfir línuna og gestirnir komnir yfir, 1:0 fyrir Fylki.
Þannig var staðan í hálfleik.
Seinni hálfleikur einkenndist af baráttu beggja liða. Keflvíkingar voru meira með boltann og líklegri til að skapa sér færi á meðan Fylkismenn áttu nokkrar skyndisóknir en Rosenörn átti mjög góðan leik og var öruggur í marki heimamanna.
Sóknarþungi heimamanna endaði svo með marki á 77. mínútu. Viktor Andri Hafþórsson fékk boltann utarlega í vítateig Fylkis og sendi á Edon Osmani sem skoraði framhjá Ólafi Kristófer Helgasyni í marki Fylkis.
Vel gert hjá varamönnunum tveimur og staðan orðin jöfn 1:1.
Þess má geta að þetta var fyrsta markið hjá Edon fyrir Keflavík í meistaraflokki, virkilega gaman fyrir hann.
Bæði lið reyndu að sækja til sigurs og á 83. mínútu var Keflavík nálægt því að skora sigurmarkið. Keflvíkingar tóku horn og komu með þéttingsfastan bolta nokkrum sentimetrum fyrir ofan jörðina þar sem Dagur Ingi Valsson kom sér út fyrir þvöguna við D-bogann og skaut rétt framhjá. Skemmtileg útfærsla sem var nálægt því að enda í markinu.
En leiknum lauk með 1:1 jafntefli og enn bíða Keflvíkingar eftir fyrsta heimasigrinum í deildinni.
Hjá heimamönnum var Rosenörn öflugur í marki Keflavíkur og var yfirleitt vel staðsettur þegar Fylkismenn voru komnir inní teiginn og bjargaði sínum mönnum nokkrum sinnum. Einnig var Sindri Þór Guðmundsson kraftmikill á vængnum og fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon stóð vaktina með sæmd í vörninni.
Sóknardúóið Pétur Bjarnason og Ólafur Karl Finsen voru hættulegir hjá Fylki og Axel Máni Guðbjörnsson var öflugur í vörninni.
Eftir leikinn fer Fylkir upp fyrir KR í sjöunda sæti með 12 stig en Keflavík situr áfram á botninum, nú með 8 stig og hefur ekki unnið í ellefu leikjum í röð.