FH-ingar ekki í vandræðum með Framara

Úlfur Ágúst Björnsson kemur FH yfir úr vítaspyrnu á 5. …
Úlfur Ágúst Björnsson kemur FH yfir úr vítaspyrnu á 5. mínútu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

FH hafði betur gegn Fram, 4:0, í Bestu deild karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í kvöld. FH hefur nú leikið fimm leiki í röð án taps í deildinni en Fram tapað fimm af síðustu sex. FH-ingar eru enn í fjórða sæti, nú með 21 stig. Fram er í tíunda sæti með ellefu.

FH-ingar byrjuðu af gríðarlegum krafti, því staðan var orðin 2:0 eftir aðeins 15. mínútur og sá Úlfur Ágúst Björnsson um að gera bæði mörkin.

Það fyrra gerði hann úr víti á 5. mínútu eftir að brotið var á Davíð Snæ Jóhannssyni innan teigs. Úlfur fór á punktinn og negldi boltanum upp í samskeytin.

Tíu mínútum síðar tvöfaldaði hann forskotið með því að lyfta boltanum yfir Ólaf Íshólm Ólafsson í marki Fram og í netið. Úlfur slapp inn fyrir vörn Fram, eftir sendingu frá Finni Orra Margeirssyni.

FH-ingar slökuðu á eftir mörkin og sköpuðu sér fá opin færi. Framarar sóttu í sig veðrið, en gestunum gekk illa að reyna á Sindra Kristin Ólafsson í marki FH-inga og var staðan í hálfleik því 2:0.

Staðan var 2:0 þar til á 54. mínútu, en þá bætti Kjartan Kári Halldórsson við þriðja marki FH-inga eftir glæsilega skyndisókn. Davíð Snær Jóhannsson lagði boltann á Kjartan, sem lyfti boltanum snyrtilega í hornið fjær og skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. 

FH-ingar voru ekki hættir, því varamaðurinn Kjartan Henry Finnbogason skoraði fjórða markið í blálokin þegar hann potaði boltanum í autt markið eftir sendingu frá Vuk Oskari Dimitrijevic og þar við sat. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

FH 4:0 Fram opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu FH-ingar ekki hættir, þótt úrslitin séu ráðin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert