Seinni umferð Bestu deildar karla í fótbolta hefst í kvöld með þremur leikjum og þar ber hæst uppgjör Kópavogsliðanna HK og Breiðabliks.
HK vann ótrúlegan sigur á Breiðabliki, 4:3, á Kópavogsvelli í fyrstu umferð deildarinnar á öðrum degi páska í vor.
Bæði lið hafa átt á brattann að sækja að undanförnu en eftir góða byrjun á mótinu hefur HK tapað fjórum leikjum í röð og er í sjötta sæti með 13 stig.
Blikar komust á skrið fljótlega eftir tapið í fyrstu umferðinni en hafa nú gert jafntefli í þremur síðustu leikjum og eru í þriðja sæti, sjö stigum á eftir toppliði Víkings og tveimur stigum á eftir Val.
Búast má við góðri aðsókn eins og alltaf þegar Kópavogsliðin mætast og reikna má með því að Kórinn verði fullur af fólki í kvöld. Damir Muminovic, lykilmaður í vörn Breiðabliks og uppalinn HK-ingur, missir af leiknum vegna leikbanns.
FH og Fram mætast í Kaplakrika í kvöld en liðin skildu jöfn, 2:2, í fyrstu umferðinni í Úlfarsárdal í vor. FH er í fjórða sæti með 18 stig en Fram er í níunda sæti með 11 stig.
Loks mætast Keflavík og Fylkir á grasvellinum í Keflavík. Þegar þau mættust í fyrstu umferð vann Keflavík 2:1 í Árbænum en hefur ekki unnið leik frá þeim tíma og situr á botninum með 7 stig. Fylkismenn eru í tíunda sæti með 11 stig og leikurinn því gríðarlega mikilvægur í botnbaráttu deildarinnar.
Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.