Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað á fundi sínum í dag að sekta ÍBV um 100.000 krónur vegna ummæla Daníels Geirs Moritz, formanns knattspyrnudeildar ÍBV, á opinberum vettvangi.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, ákvað að vísa ummælum Daníels Geirs, sem hann birti á Twitteraðgangi sínum daginn eftir leik Vals og ÍBV í Bestu deild kvenna þann 22. maí, til aga- og úrskurðarnefndar.
Ummælin sem vísað er til eru eftirfarandi:
Olga Sevcova er leikmaður ÍBV. Hún er frá Lettlandi. Allar götur síðan hún kom til Íslands hefur mátt sparka í hana af meiri krafti en aðra leikmenn. Í gær sleppir dómari af ásetningi vítaspyrnu þar sem Olga er spörkuð niður. Þetta er ekki tilviljun en algerlega óþolandi. pic.twitter.com/4ou7M4mN9M
— Daníel Geir Moritz (@DanelGeirMoritz) May 23, 2023
Að mati Klöru var með ummælunum og myndbirtingunni vegið að heiðarleika og heilindum dómara leiksins, Bríetar Bragadóttur.