Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Keflavíkur var sáttur með frammistöðu sinna manna í kvöld eftir 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Fylki í 12 umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Hann hefði viljað sækja 3 stig en allt kom fyrir ekki.
„Við erum taplausir á grasinu og okkur líður vel hér. Auðvitað vildum við vinna þennan leik og sækja sigur. Þetta var opinn leikur, mikið box í box og mikið um hlaup þannig að við vorum orðnir svolítið þreyttir í lokin og Fylkismenn líka.
Ég var ánægður með framlagið hjá leikmönnum í dag, við lentum undir sem mér fannst ekki sanngjarnt. Við fengum fullt af færum í fyrri hálfleik og gerðum vel þar og sköpuðum fullt eftir að hafa lent undir,“ sagði Sigurður Ragnar í samtali við mbl.is eftir leik.
„Í seinni hálfleik gerðum við skiptingar sem gengu vel upp. Edon [Osmani] kom inná og skoraði stuttu seinna og Viktor Andri [Hafþórsson], sem kom líka inn á, lagði upp en við náðum ekki alveg að fylgja því alveg eftir með öðru marki.
Það var minna um færi í seinni hálfleik fyrir bæði lið og þetta var jöfn barátta. Það var mikið undir, við hefðum viljað þrjú stig en þurfum að sætta okkur við eitt,“ hélt hann áfram.
Enski kantmaðurinn Marley Blair var í fréttum fyrr í dag en hann hefur komist að samkomulagi við Keflavík um að yfirgefa liðið. Sigurður Ragnar var spurður út í fleiri mannabreytingar á sínu liði.
„Við erum einnig í viðræðum við Jordan Smylie um það sama og það er ekki alveg frágengið síðast þegar ég vissi, en það er forsenda þess að við getum styrkt liðið í glugganum.
Við þurfum að losa menn fyrst sem hafa ekki staðið undir þeim væntingum sem við bárum til þeirra. Þá er betra fyrir báða aðila að leiðir skilji og þeir reyni fyrir sér annars staðar. Í staðinn reynum við að fá nýja menn sem geta styrkt okkur, vonandi náum við því,“ útskýrði hann.
Keflavíkurliðið þurfti að fara í gegnum margar leikmannabreytingar eftir síðasta tímabil og gengið hefur verið afleitt framan af en skánað þó í síðustu leikjum án þess þó að liðið hafi sótt sigur síðan í fyrstu umferð.
Rætt hefur verið um mikilvægi Sigurðar Ragnars þjálfara, að hann sé rétti maðurinn til að leiða liðið áfram og að hann sé lykilmaður í að laga gengið og stýra skútunni í rétta átt. Hvernig líður honum með ástandið og hvernig horfir hann til næstu leikja?
„Mér líður vel. Það er auðvitað skemmtilegra þegar maður vinnur leiki. En mér finnst frammistaðan, ef þú horfir á frammistöðuna sama hver úrslitin eru, þá erum við að spila betur og við erum ekki að tapa leikjum.
Við vorum óheppnir að vinna ekki í dag og í leiknum þar áður gegn Stjörnunni. Þar vorum við 1:0 yfir fram á 80. mínútu. Svo kom slakur leikur á móti Fram en við gerðum jafntefli við Val á útivelli og gegn Breiðabliki hér heima.
Ef þú horfir á síðustu 4-5 leiki þá erum við á góðri leið en við þurfum að breyta einhverjum af þessum jafnteflum í sigra. Það er líka jákvætt að sjá Edon Osmani. Hann skorar sitt fyrsta mark í deildinni og er uppalinn leikmaður sem er búinn að vera á láni í neðri deildum.
Jói [Jóhann Þór Arnarsson] byrjaði í dag, hans fyrsti leikur í byrjunarliði. Þannig að það er ýmislegt jákvætt í gangi. Axel [Ingi Jóhannesson] hægri bakvörður, 2004 strákur, hann er uppalinn og búinn að spila leiki.
Við erum í liðs uppbyggingu, það tekur tíma. Við þurfum að vera þolinmóðir enda fullt af leikjum eftir. Það er stutt í mörg lið fyrir ofan okkur þannig að við þurfum bara að halda áfram og vinna KR í næsta leik,“ sagði Sigurður Ragnar að lokum.