Grótta og HK skildu jöfn, 1:1, í mikilvægum leik í toppbaráttu 1. deildar kvenna í knattspyrnu á Seltjarnarnesi í kvöld.
HK er í öðru sæti með 17 stig eftir leikinn en Víkingar eru með 19 stig á toppnum. Grótta er í fjórða sæti með 13 stig, eins og Fylkir sem á leik til góða.
Guðmunda Brynja Óladóttir kom HK yfir á 37. mínútu eftir sendingu frá Katrínu Rósu Egilsdóttur.
Arnfríður Auður Arnarsdóttir, sem er aðeins fimmtán ára gömul, jafnaði metin fyrir Gróttu, 1:1, á 71. mínútu.
Þegar um tíu mínútur voru eftir fékk Sara Mjöll Jóhannsdóttir, markvörður HK, rauða spjaldið fyrir að handleika boltann utan vítateigs en Grótta náði ekki að nýta sér liðsmuninn á lokamínútunum.