„Þeir refsuðu okkur illa“

Arnór Sveinn Aðalsteinsson í leik með Breiðabliki fyrr í sumar.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson í leik með Breiðabliki fyrr í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leikir við HK eiga það til að vera aðeins öðruvísi og þeir refsuðu okkur svo sannarlega illa,“ sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson, miðvörður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 5:2-tap fyrir HK í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Í fyrri hálfleik fannst mér við opna þá margoft, fengum góð færi og spiluðum nokkurn veginn eins og við viljum hvað sóknaruppleggið og slíkt varðar.

En svo ræðst þetta kannski af ekki nægilega mikilli einbeitingu inni í teig. Þeir refsa okkur illa og gera það án þess að stjórna leiknum finnst mér, en gera það vissulega vel,“ bætti hann við.

Tek ekki neitt af þeim

HK skoraði fimm mörk í kvöld og fjögur í fyrri leik liðanna í deildinni, sem lauk með 4:3-sigri HK í 1. umferð. Hvað veldur því að HK hafi náð að opna Blika svona mikið í leikjunum tveimur?

„Mjög góð spurning. Við þurfum bara að setjast niður og fara yfir það. Ég eiginlega get ekki gefið nein alvöru svör við því. Ég ætla ekki að taka neitt af þeim.

Þeir klára vel og ég held að þeir hafi gert það í fyrri leiknum líka. Það væri gaman að sjá fjölda skota á mark miðað við fjölda marka sem þeir skora, að sjá einhverja svoleiðis tölfræði.

En tilfinningin er sú að þeir hafi nýtt færin sem þeir fengu gríðarlega vel og refsa okkur í einu og öllu,“ sagði Arnór Sveinn.

Reynum að koma hugrakkari inn í næsta dag

Spurður hvort tap kvöldsins væri áhyggjuefni fyrir Breiðablik upp á framhaldið að gera svaraði hann nokkuð heimspekilega:

„Fótbolti er bara vegferð og við erum alltaf einhvern veginn að horfa heildrænt á þetta. Við erum alltaf að reyna að þroskast og koma hugrakkari inn í næsta dag. Þá skiptir í rauninni ekki máli hvort þú vinnir eða tapar.

Ef þú tapar þá tekurðu því tapi sem þroska. Við leggjumst yfir þennan leik og skoðum allt sem við getum gert betur. Áhyggjur eru ekki rétta orðið.

Maður þarf bara að horfa í spegil og kíkja á allt sem maður gert betur og kíkja á allt sem við gerðum vel líka. Maður þarf að vera með kaldan haus þegar maður greinir þetta.“

„Ég held að við munum gera nákvæmlega það sama eftir þennan tapleik og við höfum í rauninni gert eftir aðra leiki, hvort sem það er sigur eða tap.

Þetta er vissulega öðruvísi eftir tapleik, tilfinningin er önnur og það er að einhverju leyti erfiðara að horfa skýrt á hlutina, en við reynum að gera það og laga það sem við þurfum að laga,“ sagði Arnór Sveinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka