Alveg ofboðslega jákvætt

Aron Snær Friðriksson handsamar boltann.
Aron Snær Friðriksson handsamar boltann. Mbl.is/Óttar Geirsson

Rúnar Kristinsson þjálfari KR var virkilega ánægður með 2:0 heimasigur gegn KA í 12.umferð Bestu deildar karla í kvöld. 

KR og KA hafa átt hörku viðureignir síðustu ár og það að vinna heimasigur og halda hreinu  var mjög mikilvægt fyrir liðið en liðið skildu jöfn 1:1 í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð fyrir norðan í vor.

„Það er mikil ánægja með að sigra, það hefur verið erfitt að brjóta KA-liðið á bak aftur undanfarin ár. Þetta hafa verið jafnir og spennandi leikir á milli þessara liða og núna náðum við í þrjú stig á heimavelli og héldum hreinu. Það er ofboðslega jákvætt fyrir okkur og mikilvægt," sagði Rúnar í samtali við

KR liðið átti ekki sinn besta dag gegn ÍBV í síðustu umferð í 1:1 jafntefli hér á KR vellinum fyrir tveimur vikum síðan og þá var grasið verra. Landsleikjahléið hefur verið notað til að sinna grasinu betur og félagið æfði vel í hléinu og kom vel undirbúið til leiks í kvöld eftir smá pásu í deildinni. Stefán Árni Geirsson, framliggjandi miðjumaður KR, var í hópnum í fyrsta sinn í sumar eftir meiðsli. Stefán er mjög tekknískur og góður á boltann og hann kom inná á 67.mínútu og átti fínan leik.

„Það er frábært að fá Stefán aftur inn. Okkur líður vel með hann inná vellinum, það er hægt að láta hann fá boltann og passa hann fyrir okkur. Hann er mjög flinkur, getur skapað og skorað. Það einfaldar okkur lífið oft, að passa boltann. Emmi (Theodór Elmar Bjarnason) hefur séð um þessa hluti fyrir okkur og Kristinn Jónsson, þeir eru flinkir í því," sagði Rúnar.

Norski markvörðurinn Simen Kjellevold var ekki í hópnum í dag og Aron Snær Friðriksson stóð vaktina í markinu. Beitir Ólafsson, gamli aðalmarkvörður KR, tók hanskana af hillunni og aðstoðaði gömlu liðsfélagana og var til taks á varamannabekknum.

Aðspurður um fjarveru Simen sagði Rúnar að vegna veikinda í heimahögunum þá þurfti Simen að fara skyndilega til Noregs og því stóð Aron í markinu. Rúnar hrósaði Aroni Snæ mikið: "Aron er búinn að sýna það að hann er frábær markvörður og stendur vaktina vel og hélt hreinu í dag" sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka