Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var sáttur með framlag sinna manna en ósáttur með tapið gegn KR á útivelli í 12.umferð Bestu deildarinnar í kvöld.
Leikurinn endaði 2:0 fyrir KR og átti KA þó nokkur fín færi og meðal annars tvö skot í slánna í sitthvorum hálfleiknum.
"Fyrir mér er þetta 50/50, þetta gat dottið báðum megin. Við eigum tvö skot í slánna og annað færið var algjört dauðafæri í stöðunni 1:0 fyrir KR. Mér fannst við vera með leikinn, þeir voru að verjast og við vorum að skapa færi.
En við þurfum að skora mörk til að vinna leikinn og við þurfum að bæta það. Svo fengum við á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum sem er eitthvað sem ég er ósáttur með og er ólíkt okkur, það er eitthvað sem við verðum að laga. En frammistaðan, vinnusemin og hvernig við vinnum sem lið hef ég ekkert út á að setja. Ef við lögum þessi atriði sem ég talaði um þá lítum við vel út," sagði Hallgrímur í samtali við mbl.is eftir leik.