Eins og þegar dansarar finna taktinn

Danijel Dejan Djuric í baráttunni við Björn Berg Bryde í …
Danijel Dejan Djuric í baráttunni við Björn Berg Bryde í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var mjög góð frammistaða,“ sagði Danijel Dejan Djuric, markaskorari seinna mark Víkings úr Reykjavík í 2:0-sigri liðsins á Stjörnunni í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld, í samtali við mbl.is.

„Það var allt að tikka; vörnin og miðjan voru geggjaðar og við vorum flottir frammi. Þetta var virkilega góð frammistaða,“ sagði Danijel sáttur. Víkingur skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik og gat aðeins leyft sér að slaka á í seinni hálfleik.

„Mér líður yfirleitt vel þegar við erum yfir í sumar. Við erum með það góða vörn og ég veit það er erfitt að komast í gegnum okkur. Það er fagmannlegt hvernig við lokum leikjunum. Við þurfum ekkert að missa okkur í seinni hálfleik. Við erum góðir að halda út þegar við erum að vinna,“ útskýrði Danijel.

Hann skoraði með glæsilegu skoti utan teigs, eftir undirbúning hjá Birni Snæ Ingasyni.

„Birnir sendir til baka og ég skýt. Þetta er eins og þegar dansarar finna taktinn. Ég er búinn að finna taktinn minn,“ sagði Danijel, sem vissi um leið og hann skaut hvert boltinn var að fara. „Maður er búinn að æfa þetta síðan maður var tíu ára. Þegar þú finnur þetta, þá finnur þú þetta.“

Danijel skoraði sigurmark íslenska U21 árs landsliðsins gegn Ungverjalandi í vináttuleik á mánudaginn var í uppbótartíma.

„Það var geggjað. Við töpuðum fyrsta leiknum, sem var jafn. Í seinni leiknum kom ég inn á og vildi láta vita af mér. Það var skrifað í skýin að ég myndi skora og það var geggjað að ná að vinna,“ sagði Danijel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka