Fylkir vann sterkan útisigur á Fjarðabyggð/Hetti/Leikni, 4:2, þegar liðin áttust við í áttundu umferð 1. deildar kvenna í fótbolta í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í dag.
Fylkir var með eins marks forystu, 1:0, þegar flautað var til leikhlés eftir að fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir hafði skorað snemma leiks.
Töluvert meira fjör færðist í leikana í síðari hálfleik en eftir klukkutíma leik var FHL búið að snúa taflinu við með mörkum frá Björgu Gunnlaugsdóttur og Sofiu Lewis með þriggja mínútna millibili.
Enn var hins vegar nægur tími fyrir endurkomu gestanna úr Árbænum.
Helga Guðrún Kristinsdóttir skoraði tvívegis fyrir Fylki og kom liðinu þannig í 3:2 þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks.
Helga Guðrún hefur nú skorað sex mörk fyrir Fylki í deildinni og er næstmarkahæst ásamt Sigdísi Evu Bárðardóttur, leikmanni Víkings úr Reykjavík.
Í uppbótartíma innsiglaði Guðrún Karítas Sigurðardóttir svo sigurinn með fjórða marki Fylkiskvenna.
Er hún búin að skora fimm mörk í deildinni í ár.
Fylkir er áfram í þriðja sæti deildarinnar en nú með 16 stig, einu stigi minna en HK í öðru sæti og þremur stigum minna en topplið Víkings.
FHL er áfram í sjöunda sæti með 9 stig.