„Það var eitt sem ég hugsaði um, síðustu tíu mínútur leiksins,“ sagði íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson, betur þekktur sem Gummi Ben, í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, þegar rætt var um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Íslenska liðið tapaði á afar svekkjandi hátt gegn Portúgal á dögunum í undankeppni EM á Laugardalsvelli.
Leiknum lauk með 1:0-sigri Portúgals en Cristiano Ronaldo skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu.
„Við hefðum mátt vera jafn miklir haugar og Portúgalarnir,“ sagði Gummi.
„Liggjum eftir, fáum aðhlynningu, Rúnar Alex hefði mátt fara niður líka því það er nákvæmlega það sem Portúgalarnir hefðu gert til að sigla þessu heim.
Við þurftum að nota öll brögðin í bókinni og við hefðum mátt vera aðeins meiri fávitar, á jákvæðan hátt, en samt sem áður landi og þjóð til sóma,“ sagði Gummi meðal annars.
Umræðan um íslenska karlalandsliðsins hefst á 7. mínútu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.