Mikilvægt að tapa ekki

Ragnar Bragi Sveinsson er fyrirliði Fylkis.
Ragnar Bragi Sveinsson er fyrirliði Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis var sáttur með stig á útivelli gegn Keflavík þegar liðin mættust í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Niðurstaðan var 1:1 jafntefli. Fylkir komst yfir í fyrri hálfleik en Keflavík jafnaði á 77.mínútu. Heimamenn í Keflavík hafa ekki enn sigrað á heimavelli í sumar og reyndu þeir eins og þeir gátu að sækja sigurinn en Fylkismenn náðu að halda ágætlega aftur af sóknarþunga Keflavíkur og komust heimamenn ekki í mörg dauðafæri.

Á móti fengu Fylkismenn skyndisóknir þannig að leikurinn var frekar jafn og úrslitin nokkuð sanngjörn. Aðspurður um fyrstu viðbrögð eftir leik hafði Ragnar Bragi þetta að segja:

„Ég er sammála. Við komumst yfir úr föstu leikatriði og vorum búnir að fá eitt gott færi fyrir það. Svo fá þeir líka eitt mjög gott færi í fyrri hálfleik sem Óli (Ólafur Kristófer Helgason) ver frábærlega. Þetta eru svona tvö-þrjú færi á sitthvort liðið.

Ég held að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit. Þeir voru að herja á okkur meira í lokin án þess að opna okkur mikið þannig að stig á útivelli er alltaf fínt í þessari deild og sérstaklega í ljósi þess hvernig staðan í deildinni er, þá er mikilvægt að hafa ekki tapað í dag og halda áfram stigasöfnuninni,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert