Fjölnir og Vestri gerðu jafntefli, 1:1, í áttundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Grafarvoginum í dag.
Óliver Dagur Thorlacius kom Fjölnismönnum yfir á 63. mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Vladimir Tufegdzic metin fyrir Ísfirðinga og við stóð, 1:1.
Fjölnismenn eru í öðru sæti með 18 stig, en með sigri hefði Fjölnisliðið jafnað Aftureldingu í toppsæti deildarinnar. Vestri er í tíunda sæti með sex stig.
Jafntefli í Njarðvík
Þá gerðu Njarðvík og Þór Akureyri 2:2-jafntefli í Njarðvík.
Þorsteinn Örn Bernharðsson kom Njarðvíkingum yfir á sjöttu mínútu leiksins en Elmar Þór Jónsson jafnaði metin á þeirri 20., 1:1.
Oumar Diouck kom síðan Njarðvíkurliðinu 2:1 yfir á 52. mínútu en ellefu mínútum síðar var Elmar aftur á ferðinni og jafnaði metin fyrir Þórsara, 2:2 sem voru lokatölur.
Njarðvík er í níunda sæti deildarinnar með átta stig en Þór er í fimmta með þrettán.