Negla Danijels innsiglaði sigur toppliðsins

Bakvörðurinn Davíð Örn Atlason fagnar marki sínu í kvöld.
Bakvörðurinn Davíð Örn Atlason fagnar marki sínu í kvöld. Mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingur úr Reykjavík er áfram með fimm stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í fótbolta eftir 2:0-heimasigur á Stjörnunni á Víkingsvellinum í Fossvogi í kvöld.

Stjörnumenn byrjuðu betur og Hilmar Árni Halldórsson skaut rétt framhjá snemma leiks og Guðmundur Kristjánsson fékk fínt færi eftir horn, en Ingvar Jónsson í marki Víkings varði.

Víkingarnir sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleik og þeir komust yfir á 29. mínútu er Davíð Örn Atlason skallaði í netið úr teignum, eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed.

Aðeins sex mínútum síðar bætti Danijel Dejan Djuric við öðru markinu með glæsilegu skoti af um 20 metra færi og boltinn söng í netinu, eftir undirbúning hjá Birni Snæ Ingasyni.

Hilmar Árni komst næst því að minnka muninn í blálok fyrri hálfleiks er hann átti mjög gott rétt utan teigs en Ingvar varði glæsilega frá honum og sá til þess að staðan í hálfleik var 2:0.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu til að opna Víkingsliðið í seinni hálfleik, en það gekk erfiðlega gegn þéttu toppliði. Hilmar Árni var helst að skapa eitthvað, en ekki gekk að reyna mikið á Ingvar í marki Víkings.

Hinum megin virtust Víkingarnir sáttir við stöðuna og sköpuðu sér lítið. Víkingsliðið sigldi því tveggja marka sigri í hús og er það enn með fimm stiga forskot á toppnum.  

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á mánudag.

Víkingur R. 2:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka