Valur gerði frábæra ferð til Vestmannaeyja þegar liðið hafði betur gegn ÍBV, 3:0, í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Hásteinsvelli í dag.
Eyjamenn léku með sterkan vindinn í bakið í fyrri hálfleik og gerði Arnar Breki Gunnarsson sig líklegan eftir einungis 16 sekúndna leik en skot hans fyrir utan vítateig fór rétt framhjá markinu.
Á tíundu mínútu náði Valur forystunni með sínu fyrsta skoti í leiknum. Aron Jóhannsson átti þá góða sendingu upp vinstri kantinn á Sigurð Egil Lárusson, hann kom með fasta fyrirgjöf með jörðinni á nærstöngina þar sem Adam Ægir Pálsson var mættur og smellti boltanum viðstöðulaust upp í þaknetið.
Um sjöunda deildarmark Adams Ægis á tímabilinu var að ræða.
Skömmu síðar átti Arnar Breki aðra hættulega tilraun rétt utan vítateigs en Frederik Schram gerði vel í að verja aftur fyrir.
Eftir rúmlega hálftíma leik náði Valur loks sínu öðru skoti í leiknum og var þar sömuleiðis um dauðafæri að ræða.
Kristinn Freyr hirti þá boltann af Sigurði Arnar Magnússni, fyrirliða ÍBV, rétt fyrir framan vítateig Eyjamanna, lék svo á hann og lék með boltann inn í vítateig, þrumaði að marki en beint í brjóstkassann á Guy Smit, markverði ÍBV.
Undir lok fyrri hálfleiksins fékk Tómas Bent Magnússon svo besta færi ÍBV í fyrri hálfleiknum. Boltinn hrökk þá til hans í vítateignum eftir langt innkast Felix Arnar Friðrikssonar, Tómas Bent náði skoti vinstra megin í markteignum en það fór af varnarmanni og í hliðarnetið.
Staðan í leikhléi var því 1:0, Valsmönnum í vil.
Heimamenn hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og fékk Tómas Bent annað gott færi á 50. mínútu þegar boltinn barst til hans eftir hornspyrnu. Skot hans úr miðjum teignum fór hins vegar af varnarmanni Vals og aftur fyrir endamörk.
Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Valur hins vegar forystu sína þegar Aron Jóhannsson skoraði eitt af mörkum sumarsins.
Patrick Pedersen lagði boltann þá út á Aron sem kom aðvífandi og hamraði boltann fyrir utan teig af óheyrilegum krafti rakleitt upp í samskeytin nær og þaðan í netið, stórglæsilegt mark.
Aðeins tveimur mínútum síðar, á 57. mínútu, gerði Valur endanlega út um leikinn. Tómas Bent skallaði þá boltann frá við eigin vítateig en ekki langt, Kristinn Freyr Sigurðsson beið hægra megin við D-bogann og náði glæsilegu skoti á lofti sem rataði niður í nærhornið.
Smit hefði hugsanlega getað gert betur, var seinn að átta sig, en skotið var vissulega gott.
Þegar rúmlega klukkutími var liðinn af leiknum komst Andri Rúnar Bjarnason, þá nýkominn inn á sem varamaður, nálægt því að skora fjórða mark gestanna. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók þá aukaspyrnu af vinstri kantinum, skrúfaði boltann inn á vítateiginn þar sem Andri Rúnar slæmdi hnakkanum í boltann en Smit varði með naumindum er hann fékk boltann í bringuna.
Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð þar sem Eyjamenn reyndu að minnka muninn. Þrátt fyrir nokkrar álitlegar sóknir kom allt fyrir ekki.
Skömmu fyrir leikslok var varamaðurinn Lúkas Logi Heimisson nálægt því að skora fjórða mark Vals. Hann náði þá skalla framhjá Smit eftir fyrirgjöf Tryggva Hrafns en Oliver Heiðarsson bjargaði á marklínu.
Ekki gerðist fleira markvert og öruggur þriggja marka sigur Vals því niðurstaðan.
Valur er áfram í öðru sæti deildarinnar en nú með 29 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Víkings, sem á leik til góða gegn Stjörnunni í kvöld.
ÍBV heldur kyrru fyrir í 11. sæti með 10 stig.