Breiðablik á toppinn eftir sigur á Val

Katrín Ásbjörnsdóttir og Lára Kristín Pedersen í baráttunni á Kópavogsvelli …
Katrín Ásbjörnsdóttir og Lára Kristín Pedersen í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik er komið í toppsæti Bestu deildar kvenna eftir sterkan 2:1-heimasigur á Val í 10. umferð deildarinnar á Kópavogsvelli í kvöld. 

Leikurinn gat ekki byrjað betur fyrir Kópavogsliðið en á þriðju mínútu kom Agla María Albertsdóttir Blikum yfir með glæstu marki þar sem hún sólaði Örnu Sif Ásgrímsdóttur upp úr skónum og setti svo boltann í fjærhornið, 1:0. 

Valsliðið átti erfitt uppdráttar og skapaði ekki mörg færi í fyrri hálfleik. Á 44. mínútu tvöfaldaðist svo forysta Blika. Þá féll boltinn fyrir fætur Birtu Georgsdóttur í teig Vals og skaut hún í Örnu Sif og þaðan fór boltinn í netið, 2:0 rétt fyrir hálfleik. 

Ásdís Karen Halldórsdóttir veitti Valskonum líflínu í byrjun síðari hálfleiks þegar hún hamraði boltanum í fjærhornið efra megin þar sem Telma Ívarsdóttir, markvörður Blika átti engan séns, 2:1.

Valskonur náðu hinsvegar ekki að nýta sér meðbyrinn og sköpuðu sér fá færi allan síðari hálfleikinn en Andrea Rut Bjarnadóttir Blikakona fékk besta færi seinni hálfleiksins þegar hún átti skot sem Fanney Inga Birkisdóttir varði í þverslánna. 

Að lokum sigldi Breiðablik sigrinum heim, en Blikakonur eru nú með 20 stig, jafnmörg og Valur, en á toppnum út af betri markatölu. 

Breiðablik 2:1 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka