„Mér fannst að við hefðum getað labbað burt með eitt stig,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
„Mér fannst mörkin sem þær skoruðu rosalega ódýr, sérstaklega í byrjun leiks. Svo að fá mark á okkur undir lok fyrri hálfleiksins var ekkert sérstakt.
Við komum svo til baka í byrjun síðari hálfleiks og mér fannst við með nokkuð góð tök á leiknum en við sköpuðum okkur ekki nógu mikið til þess að skora.“
Breiðablik er nú komið í toppsæti deildarinnar með 20 stig, jafnmörg og Valur en með betri markatölu. Pétur segir sitt lið þurfa fyrst og fremst að fá leikmenn til baka úr meiðslum.
„Við þurfum fyrst og fremst að fá leikmenn til baka, við vorum í smá meiðslabrasi í kvöld, eins og við höfum verið í í allt sumar. Við þurfum að fá það í lag númer eitt tvö og þrjú.
Við erum með jafnmörg stig og Blikarnir, þannig það eru bara næstu tveir leikir, svo kemur frí og svo sjáum við til hvað skeður,“ sagði Pétur að lokum.