Tíunda umferð Bestu-deildar kvenna í fótbolta hófst í dag með leik Þórs/KA og Stjörnunnar á Þórsvellinum á Akureyri.
Fyrir leik var Þór/KA með 15 stig en Stjarnan hafði aðeins unnið þrjá leiki og var með 11 stig. Leikurinn í dag var algjörlega frábær og átti hvort lið sinn hálfleik. Mörkin hrönnuðust upp og lauk þessum bardaga með 3:3 jafntefli eftir að staðan hafði verið 3:0 fyrir Stjörnuna í hálfleik.
Aðstæður á Þórsvellinum voru góðar í dag. Það var nánast logn og 19°C hiti. Nokkru fyrir leik hafði komið úrhellisrigning og völlurinn var því blautur.
Það má segja að Stjarnan hafi tekið leikinn i sínar hendur strax við upphafsflautið. Þrjár hornspyrnur í byrjun leiks skiluðu tveimur mörkum. Fyrra markið skoraði Snædís María Jörundsdóttir með skalla úr markteignum eftir fasta fyrirgjöf frá Sædísi Rún Heiðarsdóttur. Sædís Rún átti skömmu síðar fasta sendingu inn í markteig þar sem Heiða Ragney Viðarsdóttir náði að stýra boltanum í markið. Staðan var orðin 2:0 eftir tólf mínútur.
Garðbæingar héldu nokkrum sóknarþunga út allan fyrri hálfleikinn og munaði oft mjóu upp við mark Þórs/KA. Þriðja markið kom að lokum og var það Jasmín Erla Ingadóttir sem skoraði það.
Staðan var 3:0 í hálfleik fyrir Stjörnuna og voru öll mörkin af ódýrari gerðinni enda heimakonur eitthvað vankaðar í vítateignum. Aðeins stórgóð markvarsla Melissu Ann Lowder í marki Þórs/KA í nokkur skipti olli því að forskor Stjörnunnar í hálfleik var aðeins þrjú mörk.
Heimakonur komu með kraft inn í seinni hálfleikinn og létu loks finna fyrir sér. Þær uppskáru mark úr vítaspyrnu snemma. Hulda Björg Hannesdóttir skoraði af punktinum. Létu norðankonur kné fylgja kviði næstu mínútur en síðan þróaðist leikurinn út í barning og baráttu án þess að liðin næðu að skapa mikið af færum.
Þegar leið á leikinn virtist Stjarnan ætla að landa sigri en tvö mörk á lokakaflanum tryggðu heimakonum jafntefli. Karen María Sigurgeirsdóttir náði að minnka muninn kortéri fyrir leikslok.
Jöfnunarmarkið var svo af dýrari gerðinni og kom úr aldeilis óvæntri átt. Varamaðurinn og varnarjaxlinn Iðunn Rán Gunnarsdóttir þrumaði boltanum í stöngina og í Auði markvörð Stjörnunnar og inn við gríðarlegan fögnum Akureyringa.
Önnur eins dramatík hefur ekki sést á Þórsvellinum lengi og á hið unga lið Þórs/KA mikið hrós skilið fyrir síðari hálfleikinn í dag. Að sama skapi er það rannsóknarefni hvernig hið gríðarlega reynslumikla lið Stjörnunnar gaf frá sér sigurinn og alla þá yfirburði sem liðið hafði í fyrri hálfleiknum.
Það er við hæfi að telja Melissu Ann Lowder, markvörð Þórs/KA, besta mann leiksins. Hún varði oft á tíðum stórvel og bjargaði liði sínu frá enn háðulegri útreið í fyrri hálfleiknum. Lagði hún grunninn að mögulegri upprisu Þórs/KA. Annars voru það Hulda Björg Hannesdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sem leiddu sitt lið áfram með svakalegri baráttu og vinnslu allan seinni hálfleikinn.